Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Éljagangur Norðan og Austan en bjart á Suðausturlandi

25.01.2021 - 06:44
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Veðurstofan gerir ráð fyrir norðan- og norðaustankalda og allhvössum vindi í dag, víða 8 til15 metrar á sekúndu. Áfram verður éljagangur á Norður- og Austurlandi, og eru því enn líkur á samgöngutruflunum á þeim slóðum.

Vetrarfærð er þannig í flestum landshlutum en þó er greiðfært með suðausturströndinni að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. 

Dynjandisheiði er lokuð og óvissustig er í gildi vegna snjóflóðahættu um Eyrarhlíð í Skutulsfirði og í Súðavíkurhlíð.

Vegurinn um Þverárfjall er lokaður og óvissustig vegna snjóflóðahættu á Siglufjarðarvegi, um Ljósavatnsskarð og Ólafsfjarðarmúla.

Á ratsjármyndum segir veðurfræðingur að sjá megi snjókomubakka skammt undan suðvesturströndinni, en að enn sé óljóst hversu langt hann gengur inn á land.

Suðvestantil á landinu eru því líkur á snjókomu, en það gæti brugðið til beggja vona. Á Suðausturlandi er hins vegar útlit fyrir bjartviðri í dag. Spáð frosti allt að tíu stigum, kaldast verður í innsveitum fyrir norðan.

Vestanlands bætir í vind í kvöld, og á morgun verða allhvass austan og norðaustanvindur eða hvassviðri 13 til 18 metrar á sekúndu, en talsvert hægari vindur um landið austanvert.

Dálítlum éljum er spáð norðantil á landinu, annars verður úrkomulítið. Veðurstofan segir að heldur herði á frosti á morgun.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV