Elísabet greinir frá þessu í samtali við Fótbolti.net í dag.
Þar segir að viðræður hafi gengið vel lengst af en fyrir helgi hafi forsendurnar breyst.
„Þau höfðu samband við mig í byrjun janúar og ég fór á tvo fundi með þeim. Ég hef líka átt einhver mini samtöl þess á milli. Við höfum rætt það í tvær vikur að ég þjálfi Kristianstad áfram í ár og landsliðið og að ég myndi síðan hætta hérna úti og fara alfarið í landsliðsverkefnið. Ég ætla að vera alveg hreinskilin, ég hélt að við værum að finna lausn á þessu. Þetta er kóróna ár og það eru færri verkefni á venjulegu ári. Ég var mjög skýr, ég hef ótrúlega mikinn áhuga á þessu starfi og vildi finna lausn á þessu," sagði Elísabet við Fótbolta.net.
„Þau höfðu samband í janúar og þá var ég búin að skrifa undir samning hér. Ég túlkaði þetta eins og það væri vilji til að finna lausn á þessu. Á fimmtudaginn voru þau komin í hring með það að það gengi ekki að gera þetta saman í ár og ég yrði að hætta hérna innan þriggja mánaða. Að koma með það sem skilmála 20. janúar er of seint. Ég er ekki þannig, hvorki sem manneskja né þjálfari, að labba frá liðinu þegar ég er búin að standa fyrir framan það og ræða markmið og strategíu fyrir árið. Ég get bara ekki gert það. Þar af leiðandi var það nei af beggja hálfu,“ segir Elísabet ennfremur í viðtalinu og bætir við:
„Ég er drullusvekkt með þetta. Svona er þetta. Ég ber virðingu fyrir því að þau vilji ekki vera með þjálfara í tvöföldu starfi. Ég hlýt að hafa mistúlkað þetta brjálæðislega því mér fannst okkar viðræður vera þannig að við værum að finna lausn á þessu. Ég held að sá vilji hafi ekki endilega verið til staðar. Maður verður að bera virðingu fyrir því og vona að þeir ráði góðan mann í starfið. Þetta er rosalega spennandi lið að þjálfa.“
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, hefur einnig verið í viðræðum við KSÍ um að taka við landsliðinu og þykir hann líklegasti kosturinn úr því að Elísabet er ekki lengur inni í myndinni.