
Biden framlengir ferðabann til Bandaríkjanna
Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir embættismanni í bandaríska heilbrigðiskerfinu.
Ferðabann átti að falla úr gildi á þriðjudag
Donald Trump gaf út tilskipun um að aflétta skyldi gildandi ferðabanni frá Brasilíu og Evrópuríkjunum í liðinni viku og átti sú tilskipun að ganga í gildi á þriðjudag. Tilskipun Bidens tekur hins vegar gildi á morgun og kemur þannig í veg fyrir afléttingu bannsins.
Dr. Anne Schuchat, aðstoðarforstjóri bandarísku smitsjúkdóma- og sóttvarnastofnunarinnar, segir að ákveðið hafi verið að bæta Suður-Afríku á bannlistann vegna nýja afbrigðisins sem þar geisar.
Grímuskylda í almenningssamgöngum og krafa um neikvætt COVID-19 próf
Í vikunni ganga einnig í gildi reglur um grímuskyldu fyrir öll þau sem eldri eru en tvævetur og ferðast með almenningssamgöngum eða deila farkostum með fólki utan eigin fjölskyldu. Grímuskylda verður því í innanlandsflugi, ferjum, lestum, neðanjarðarlestum, sporvögnum og strætisvögnum, leigubílum og deilibílum.
Að auki er kveðið á um að hver sá sem ferðast til Bandaríkjanna frá öðru ríki skuli framvísa vottorði um neikvætt COVID-19 sýni, sem tekið er innan við þremur sólarhringum áður en lagt er af stað. Eina undantekningin frá þessu er fólk sem getur framvísað vottorði um að það hafi þegar veikst og náð bata af COVID-19.