
Andlátið í Sundhöllinni skilgreint sem vinnuslys
Jóhann Karl segir að beðið sé niðurstöðu úr krufningu, en hennar sé að vænta næstu daga. Enginn sé með réttarstöðu sakbornings í málinu.
Maðurinn starfaði í geðþjónustu og var með geðfötluðum skjólstæðingi sínum í sundlauginni þegar hann lést. Hann fannst á botni laugarinnar.
„Þetta er skilgreint sem vinnuslys, þar sem maðurinn var að störfum þegar hann lést og færðist því frá miðlægri rannsóknardeild til okkar. Við fengum gögnin frá deildinni núna í morgun og erum að fara yfir þau,“ segir Jóhann Karl sem segist ekki geta gefið meiri upplýsingar um málið á þessari stundu.
Spurður hvort talið sé að öryggiseftirliti hafi verið ábótavant í sundlauginni segir hann ekki hægt að fullyrða neitt um það. Verið sé að skoða upptökur úr myndavélum sundlaugarinnar, vonast sé til þess að þær geti gefið vísbendingar um andlát mannsins.