Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Yfir 25 milljónir COVID-19 smita í Bandaríkjunum

24.01.2021 - 06:34
epa08927068 A patient walks up toward the entrance of the LAC USC Hospital ER amid the coronavirus pandemic in Los Angeles, California, USA, 08 January 2021. Due to hospitals being overwhelmed, the Los Angeles Emergency Medical Services (LA EMS) were told not to transport patients who likely will not survive to hospitals. Stretched to the breaking point by the amount of COVID-19 patients , Los Angeles County's four public hospitals are preparing to rationing care, with 'triage officers' set to decide which patients can benefit from continued treatment and which are beyond saving.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: epa
Yfir 25 milljónir manna hafa nú greinst með COVID-19 í Bandaríkjunum samkvæmt samantekt New York Times. Bandaríkjaforseti býst allt eins við því að farsóttin leggi fleiri en 600.000 Bandaríkjamenn í valinn áður en yfir lýkur.

Tala New York Times yfir fjölda smitaðra er eilítið hærri en sambærilegar tölur Johns Hopkins-háskólans, sem heldur utan um þróun faraldursins í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum. Af þeim að ráða er þó  óhjákvæmilegt að tilfellin verði orðin fleiri en 25 milljónir áður en þessi dagur rennur sitt skeið. Í frétt New York Times er haft eftir sérfræðingum að raunverulegur fjöldi sé að líkindum enn hærri.

„Ótrúlegar hörmungar"

„25 milljónir tilfella eru til marks um alveg ótrúlegar hörmungar," segir Caitlin Rivers, smitsjúkdómasérfræðingur við Johns Hopkins, sem hefur áður sagt kórónaveirufaraldurinn einhverja mestu heilbrigðisvá sögunnar.

COVID-19 hefur dregið yfir 417.000 manns til dauða í Bandaríkjunum og í gær lýsti Joe Biden, Bandaríkjaforseti, því yfir, að búast mætti við því að dauðsföllin verði orðin 500.000 í næsta mánaðar og 600.000 eða fleiri áður en yfir lýkur.

Níu mánuðir liðu frá því að fyrsta COVID-19 tilfellið var greint í Bandaríkjunum þar til þau voru orðin 10 milljónir, þann 8. nóvember. Á gamlársdag, sjö vikum síðar, voru staðfest smit orðin 20 milljónir og nú, aðeins þremur vikum síðar, eru þau orðin 25 milljónir.