
Snjóflóð féll úr Skollahvilft ofan Flateyrar í nótt
Áfram er varað við snjóflóðahættu á Norðurlandi og á norðanverðum Vestfjörðum. Hættustig er í gildi á Siglufirði og á Ísafirði og Flateyri, þar sem svæði voru rýmd í gær.
Fleiri snjóflóð í nótt og í gær
Í nótt féll snjóflóð á veginn um Eyrarhlíð, milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Vegurinn var opinn með óvissustigi um snjóflóðahættu þegar snjóflóðið féll en honum svo lokað.
Í gær kom í ljós snjóflóð sem féll ofan við bæinn Smiðsgerði í Skagafirði. Flóðið tók skúr sem stóð um 250 m ofan við bæinn. Samkvæmt Veðurstofunni er ekki vitað með vissu hvenær flóðið féll en talið líklegt að það hafi fallið í snemma i gær.
Óvissa um veðrið
Óvissa er um hversu mikil úrkoma verður í éljaganginum dag og á morgun í þessu veðri en það ræður miklu um hversu mikil snjóflóðahættan er á hverjum stað.
Heldur hefur dregið úr veðrinu frá því í gærkvöldi og minni úrkoma mælst á flestum sjálfvirkum úrkomumælum. Áfram gengur þó á með dimmum éljum og skafrenningi. Spár gera ráð fyrir að heldur eigi að lægja í dag og draga úr úrkomu. Áfram megi þó búast við norðaustanstrekkingsvindi og éljum í dag og á morgun. Veðurstofan fylgist grannt með aðstæðum.