Arnór Orri Hermannsson býr á Björgum í Kinn. Hann birti myndskeið á Facebook í dag þar sem hann var að ryðja veginn heim að bæjunum sem er að hans sögn undir vatnsborði. Veginn þarf að ryðja til að mjólkurbíll gæti sótt mjólk til bænda. Hann sagði í samtali við fréttastofu að þrátt fyrir að vegurinn hafi verið mokaður hafi mjólkurbíllinn orðið fyrir tjóni vegna þess hve slæmur vegurinn er. Þetta sé um 300 metra kafli sem fari undir vatn þegar skurðir fyllast. Vegurinn sé mjög siginn, enda lagður í mýrarfen að hans sögn.
„Kominn tími til að Vegagerðin taki sig saman í andlitinu og fari að laga veginn í útkinn. Hér er vegurinn nærri undir sjávarmáli og þar safnast allt vatnið fyrir. Nú er 60-70 cm af vatni á veginum og engin leið að veita því burt. Við þurfum að ryðja vatninu á undan mjólkurbílnum báðar leiðir. Og fólk kemst ekki til sinnar vinnu næstu daga.“ segir Arnór.
Að hans sögn gerist það reglulega að vegurinn hverfi á kaf í vatn og snjó þegar veður eru válynd. Á bæjunum búi hátt í 10 manns sem þurfi að komast leiðar sinnar til vinnu og að þar séu börn sem þurfa að komast í skóla. Þá búi þar einnig kornabörn. Það sé óhugnarlegt til þess að hugsa hvað yrði gert ef slys eða veikindi bæru brátt að.
Arnór veitti fréttastofu leyfi til að birta meðfylgjandi myndskeið. Rétt er að vara við hávaða í jarðýtunni í myndskeiðinu.