
Mótmælin í kvöld voru líka öllu fjölmennari en samskonar samkoma fyrir tveimur vikum. Danska blaðið BT áætlar að um 1.000 manns hafi safnast saman á Ráðhústorginu að þessu sinni en aðeins tvö til þrjú hundruð manns hlýddu kallinu fyrir hálfum mánuði.
Hitnaði í kolunum með kvöldinu
Er líða tók á kvöldið fór heldur að hitna í kolunum, segir í frétt DR. Lögreglan hafði margoft skipað fólki að dreifa sér og halda til síns heima en talaði fyrir daufum eyrum. Þegar hún að lokum tók til við að leysa mótmælin upp brást hluti mótmælenda illa við og svaraði með því að grýta laganna verði með ýmsu lauslegu sem hendi var næst.
Þá var stór brúða, sem átti að fyrirstilla Mette Frederiksen, forsætisráðherra, hengd upp og brennd. Á brúðunni var pappaskilti með textanum „Hun må og skal aflives“ eða Það verður að taka hana af lífi og það verður gert. Um klukkan ellefu í kvöld, að dönskum tíma, voru flestir eða allir mótmælendur horfnir úr miðborginni og allt með kyrrum kjörum á ný.