Árituðu Íslendingarnir í Petsamóförinni þennan jakka?

Mynd: RÚV / RÚV

Árituðu Íslendingarnir í Petsamóförinni þennan jakka?

24.01.2021 - 08:30

Höfundar

„Ég hef aldrei þorað að taka þessa hluti upp, ég er svo hræddur um að þeir skemmist,“ segir Frank Ú. Michelsen sem hefur í fórum sér forláta tösku sem inniheldur meðal annars samanbrotinn jakka sem á eru rituð nöfn margra Íslendinganna sem voru um borð í strandferðaskipinu Esjunni í Petsamóförinni árið 1940.

Árið 1940 hélt strandferðarskipið Esjan til Petsamó í Norður-Finnlandi til að sækja þangað 258 Íslendinga sem urðu innlyksa á meginlandi Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni. Aðdragandinn að ferðinni var langur og eftir margra mánaða þrotlausa vinnu íslenskra embættismanna fékkst samþykki bæði Breta og Þjóðverja fyrir því að Esjan skyldi sigla til Petsamó til að sækja Íslendingana.

Esjan lagði af stað frá Reykjavík 20. september en það gekk ekki þrautalaust fyrir sig að komast á leiðarenda. Skipið var hertekið af þýskum herflugvélum og skipað að sigla til Þrándheims í Noregi þar sem það var kyrrsett í fjóra daga og lenti það í ýmsum hremmingum. En að lokum komst Esjan eftir mikla ævintýraför í höfn í Reykjavík þann 15. október.

Á meðal þeirra sem voru um borð í Esjunni í þessari frægu ferð var faðir Franks Ú. Michelsen, eiganda Michelsen-úrsmiða. Hann hefur í fórum sér tösku með munum sem tengjast ferðinni sem hann fékk þegar faðir hans, Franch Michelsen úrsmíðameistari, lést.

„Í töskunni eru munir sem voru honum mjög hjartfólgnir,“ segir Frank og opnar töskuna varlega. „Ég hef aldrei þorað að taka þessa hluti upp, ég er svo hræddur um að þeir skemmist,“ segir hann. Ofan í töskunni er samanbrotinn jakki sem er merkilegur fyrir þær sakir að á hann eru rituð nöfn margra Íslendinganna, sem voru um borð í Esjunni í þessari frægðarför. Svo virðist sem þetta séu eiginhandaráritanir. Manneskjan sem átti jakkann var kunningjakona Franchs og farþegi skipsins, og hún fékk alla til að árita hann, samkvæmt syni hans.

Viktoría Hermannsdóttir og Sigurður Helgi Pálmason fara á stúfana að vanda til að afla sér frekari upplýsinga um ferðina frægu og þennan merkilega fund. Þau leitast við að komast að því hvort jakkinn sé ósvikinn.

Fyrir alla muni er á dagskrá RÚV í kvöld kl. 19.40.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Er þetta stýrið úr Pourquoi-Pas?