Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stórbrotin fæðing verður klisjum að bráð

Mynd: - / Netflix

Stórbrotin fæðing verður klisjum að bráð

23.01.2021 - 20:00

Höfundar

Kvikmyndin Pieces of a Woman hefst á atriði sem er hreint út sagt ótrúlegt áhorfs, segir Gunnar Eggertsson gagnrýnandi, en því miður reiði myndin sig fullmikið á augljósa táknfræði að því loknu.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Pieces of a Woman, eða Brot úr konu, er norður-amerísk framleiðsla, en úr smiðju ungverska kvikmyndahöfunda, leikstjórans Kornél Mondruczó og handritshöfundarins Kötu Wéber, sem gerðu meðal annars hina stórmerkilegu hundamynd White God fyrir nokkrum árum. Hér er um að ræða mynd um foreldra sem missa barn við fæðingu og söguna af því hvernig sorgin umbreytir lífi þeirra og sambandi í kjölfarið.

Pieces of a Woman byggir á leikriti sem Mondruczó og Wéber unnu saman, en sögusviðið er flutt frá Varsjá til Boston og í aðalhlutverkum eru Vanessa Kirby, sem margir kannast við úr The Crown, þar sem hún leikur Margréti prinsessu, auk Shia LaBeouf, Ellen Burstyn og fleiri. Myndin var frumsýnd á Feneyja-hátíðinni í fyrra, þar sem Kirby hlaut einmitt verðlaun sem besta leikkona, og myndin kom inn á Netflix fyrr í þessum mánuði.

Pieces of a Woman segir frá parinu Mörthu og Sean sem eru spennt fyrir því að stofna fjölskyldu. Martha er langt gengin með stúlkubarn og verðandi foreldrarnir á fullu að undirbúa næsta skref í samlífinu. Það kemur kannski ekki á óvart að Pieces of a Woman eigi uppruna sinn á leiksviði, því þetta er að miklu leyti stofudrama sem veltur á sterkum aðalpersónum og natúralískum leik, en verkið stendur fyllilega á eigin fótum sem kvikmynd, einkum vegna sérstaklega áhrifaríks atriðis snemma í myndinni, þar sem áhorfendur standa á öndinni í tæpan hálftíma og fylgjast með fæðingunni frá fyrstu samdráttum og þar til yfir lýkur. Atriðið er hreint út sagt ótrúlegt áhorfs, vekur spennu og óhug, og ég man ekki eftir jafnraunsæislegri fæðingarsenu í kvikmynd – þetta minnti mig á nýlega íslenska heimildamynd um heimafæðingar, Aftur heim, svo eðlileg er senan, og minnir einmitt á heimildamynd, ekki síst vegna þess að það er ekkert klippt í allri senunni, myndavélin svífur á milli móðurinnar, föðurins og ljósmóðurinnar, og senan rúllar áfram í einni langri töku eins og maður sé á staðnum. Þessi fæðingarsena er sannkallað stórvirki og gerir myndina út af fyrir sig þess virði að sjá, enda var ótrúlega mikið lagt í að setja atriðið á svið.

Svo tekur blákalt raunsæisdramað við og líf persónanna einkennist af sorg, sektarkennd, skömm, reiði og jafnvel hefndargirni sem kviknar og beinist að ljósmóðurinni, sem er dregin fyrir dóm fyrir að hafa ekki staðið sig. Martha og Sean takast á við missinn á ólíka vegu, móðir hennar – leikin af Ellen Burstyn – vill ólm halda einhvers konar stjórn á sorgarferlinu, og inn í söguna fléttast hinar og þessar víðari pælingar um sorgarferlið, um réttarferlið, um heimafæðingar, um vald og stjórnun á líkama og sál. En eftir því sem á líður verður Pieces of a Woman mun hefðbundnari kvikmynd en hún virðist í fyrstu – sem er ekkert slæmt þannig séð, en hefur áhrif á upplifunina einmitt vegna þess að stóra fæðingarsenan er svo svakalega sterk, grípandi og óvenjuleg. Auðvitað átti ég ekki von á að myndin myndi endurskapa álíka drama öðru sinni, því doðinn og sorgin eru einmitt lykilatriði í síðari hlutanum, en hún dettur ofan í klisjur sem ég átti ekki von á, sem sagt augljósa táknfræði um sálarástand aðalpersónunnar og innblásnar ræður sem virkuðu skrifaðar og á skjön við annars natúralískan heimildamyndablæ verksins.

En það skemmir ekki fyrir heildinni og Pieces of a Woman er sterkt og gott drama með reglulega góðum leikurum, úr smiðju leikstjóra og handritshöfundar sem ná að fanga fæðingu og missi á bæði raunsæislegan og óvenjulegan hátt.