Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óánægðir fjárfestar krefja Bayer um milljarða bætur

epa06859633 A riverside view of Bayer chemical corporation in Leverkusen, Germany, 02 July 2018. Bayer completed the acquisition of Monsanto early June 2018. The Leverkusen-based company has paid more than 60 billion USD for the US concern, which is
Verksmiðja Bayer í Leverkusen í Þýskalandi. Mynd: EPA-EFE - EPA
Hópur fjárfesta hefur höfðað mál á hendur efna- og lyfjarisanum Bayer þar sem þeir krefjast skaðabóta vegna  stórfelldrar verðlækkunar á hlutabréfum í fyrirtækinu eftir yfirtöku þess á hinu umdeilda og afar óvinsæla fyrirtæki, Monsanto.

Frá þessu er greint á vef þýska tímaritsins Der Spiegel. Þar segir að fjárfestarnir haldi því fram að þeir hafi ekki verið nægilega vel upplýstir um áhættuna sem fylgdi yfirtöku Bayer á Monsanto. Samkvæmt heimildum blaðsins krefjast þeir nær 37 milljóna evra, um 5,8 milljarða króna, í skaðabætur. Bayer segir ekkert hæft í ásökunum fjárfestanna um ónógar upplýsingar. 

Umdeildur og óvinsæll framleiðandi eiturefna og erfðabreyttra plantna

Monsanto framleiðir meðal annars illgresiseyðinn Roundup og fleiri skyldar vörur, sem innihalda virka efnið glyphosat. Mörg skaðabótamál hafa verið höfðuð á hendur Monsanto í Bandaríkjunum, þar sem kærendur hafa rakið ýmis veikindi, þar á meðal krabbamein, til notkunar á Roundup.

Sjá einnig: Gengi bréfa lækkar vegna Monsanto-dómsins

Einnig hefur Monsanto verið leiðandi á sviði erfðabreyttrar landbúnaðarframleiðslu. Hefur fyrirtækið þótt ganga fram af mikilli hörku og óbilgirni gegn bændum sem verða fyrir því óláni að korntegundir sem hannaðar hafa verið í rannsóknastofum fyrirtækisins taka að spretta upp á ökrum þeirra að þeim fornspurðum. Hvorugt hefur orðið til að afla fyrirtækinu vinsælda, hvorki í bændasamfélaginu né meðal almennings.