Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Minni snjór á pallinum en þegar snjóflóð féll seinast

23.01.2021 - 18:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aukin snjóflóðahætta er á Flateyri og því hefur Veðurstofan lýst yfir hættustigi. Kona sem þarf að yfirgefa heimili sitt segist vera róleg þrátt fyrir rýminguna. Það sé minni snjór núna en þegar flóð féllu á Flateyri í janúar í fyrra.

Rýma þarf fjögur íbúðarhús á Flateyri. Það eru hús sem standa næst varnargarðinum í Ólafstúni og Goðatúni. Þá er dvöl í bensinstöðinni bönnuð og kveikt verður á viðvörunarljósinu við höfnina sem merkir að ekki sé ráðlegt að dvelja þar. Þetta er sagt vera öryggisráðstöfun og að fólk þurfi ekki að óttast.

Mörg flóð hafa fallið á norðanverðum Vestfjörðum og þar af nokkur stór. Stór flóð féllu úr Selabólsurð í Önundarfirði og Hádegisfjalli utan Bolungarvíkur í dag. Steinunn Guðný Einarsdóttir býr í Ólafstúni á Flateyri og er fædd og uppalin í þorpinu. Hún var að pakka niður í töskur þegar fréttastofa náði af henni tali seinni partinn í dag. Lögreglan hafði þá gefið út tilkynningu um rýmingu.

„Og það er bara að taka því. Þetta er í fyrsta skipti sem við förum út, og þetta er bara nýr veruleiki bara, en það er rosa fínt veður og ekkert ofboðslega mikill snjór, en við erum ekki sérfræðingarnir,svo við bara hlýðum,“ segir Steinunn.

Vilja hafa vaðið fyrir neðan sig

Hún segir að það virðist vera þannig að Almannavarnir vilji hafa vaðið fyrir neðan sig, ekki síst í ljósi snjóflóðsins sem féll í janúar í fyrra þar sem eignartjón varð mikið.

„Eðlilega eru menn brenndir eftir seinasta ár. Við fengum alveg uppvakninguna þá, en þetta er ekkert það skemmtilegasta, ef þetta leggur línuna þá vonum við að við fáum betri varnir og verðum aftur í sömu stöðu eins og síðast, fyrir flóðið í janúar,“ segir Steinunn.

Fyrst og fremst vesen að koma börnum og hundi út úr húsi

Hún segist ekki vera hrædd um að snjóflóð sé yfirvofandi eins og er.

„Af því að maður þekkir nú söguna og aðstæður voða vel. Snjórinn hjá mér á pallinum er ekkert í líkingu við það sem hann var fyrir ári síðan, það róar mig. Auðvitað ef það væri vitlaust veður og að koma heilmikill snjór væri ónot í manni, en við erum voða róleg sko. Þetta er bara vesen að koma öllu krakkastóðinu út og hundinum. En ekkert alvarlegt sko,“ segir Steinunn.

Enn er hættustig á Siglufirði og Ísafirði og óvissustig á norðanverðum Vestfjörðum og Norðurlandi vegna snjóflóðahættu. 
Mikil hætta er talin á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum á morgun og mánudag með aukinni snjósöfnun í hlíðum fjalla.

„Nokkur flóð hafa fallið í Skutulsfirði í gær og í nótt. Þá féll nokkuð stórt snjóflóð úr Selabólsurð yfir Flateyrarveg í morgun. Einnig féll flóð í Hádegisfjalli í Syðridal inn af Bolungarvík, líklega síðdegis í dag. Það hefur verið snjókoma með köflum síðan á laugardag fyrir viku og töluverð snjósöfnun síðasta einn og hálfa sólarhringinn í NA-átt. Ekki hefur verið aftakaveður, en snjóflóðahætta hefur byggst upp vegna langvarandi snjósöfnunar og skafrennings í marga daga í sömu vindátt. Spáð er svipuðu veðri fram eftir sunnudegi og síðan hægari NA-átt fram á mánudag með snjókomu,“ segir á vef Veðurstofunnar. 

Hér má sjá ítarlegri spá fyrir ofanflóð hjá Veðurstofunni.

Rætt verður við Steinunni í kvöldfréttatíma RÚV klukkan 19.