Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjöldi manns handtekinn í mótmælum í Rússlandi

23.01.2021 - 12:50
Mynd: EBU / RÚV
Þúsundir mótmælenda eru nú í Moskvu til að krefast þess að stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny verði látinn laus úr fangelsi. Minnst tugir þeirra hafa verið handteknir..

Navalny var handtekinn við komuna til Rússlands á sunnudag og úrskurðaður í mánaðar gæsluvarðhald fyrir rof á skilorði. Hann hvatti stuðningsfólk sitt til að mótmæla á götum úti í dag og virðist fólk hafa brugðist við því.

Rússnesk stjórnvöld höfðu boðað í gær að mótmælin yrðu kæfð, enda talin ólögleg. Mótmælin voru skipulögð í yfir 60 borgum í Rússlandi og ein af þeim fyrstu voru í borginni Khabarovsk, sem er austast í landinu, við landamærin að Kína. Þar fóru mótmæli af stað, lögreglan varaði fólk við að bannað væri að safnast saman út af Covid 19 faraldrinum og síðan var fólk handtekið.

Í Moskvu hefur þetta verið öðruvísi. Það voru mótmælin boðuð klukkan 11 í morgun að íslenskum tíma. Lögregluliðið varð hins vegar sífellt fjölmennara og byrjaði að handtaka fólk löngu áður en mótmælin í raun hófust. Fólk var byrjað að safnast saman á Pushkin-torgi og þaðan átti að ganga fylktu liði að Kreml, en lögreglan fór töluvert löngu áður að handtaka fólk af handahófi, oft fyrir engar sakir aðrar en að vera í hópi mótmælenda.  Að minnsta kosti eitt barn hefur verið á meðal margra tuga sem hafa verið handteknir (sjá myndskeið).

Þá hafa líka margir af nánustu samstarfsmönnum Navalnys hafi verið handteknir, þar á meðal talskona hans.

Samkvæmt fjölmiðlum tóku nokkur þúsund manns þátt í mótmælunum í austurhluta Rússlands en tölur um mótmælendur í Moskvu hafa ekki verið staðfestar. Fjöldin virðist þó allnokkur af myndum að dæma. 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV