
Belgar banna ónauðsynleg ferðalög til og frá landinu
Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, greindi frá þessu í gær. Fólk fær þó áfram að sækja vinnu og heilbrigðisþjónustu yfir landamærin, og sinna fjölskyldu og öðrum mikilvægum erindum.
„Við ætlum ekki að reisa múr umhverfis Belgíu,“ sagði forsætisráðherrann á fréttamannafundi. „Við getum farið til annarra landa, en aðeins í brýnum erindagjörðum.“
ESB vill ekki ferðabann innan sambandsins
De Croo tilkynnti fyrirhugað ferðabann daginn eftir að leiðtogaráð Evrópusambandsins hafnaði því að taka upp ferðabann milli aðildarríkjanna. Þess í stað samþykktu leiðtogarnir að „mæla eindregið gegn“ óþarfa ferðalögum milli landanna og vöruðu við því, að gripið yrði til harðari aðgerða ef nýju afbrigði veirunnar ná fótfestu á meginlandinu.
Strangar takmarkanir gilda nú þegar um ferðir til og frá Evrópusambandinu, sérstaklega frá löndum þar sem hin svokölluðu bresku, suður-afrísku og brasilísku afbrigði veirunnar hafa náð útbreiðslu.
Faraldurinn hefur lagst þungt á Belga
Belgía er á meðal þeirra Evrópuríkja sem verst hafa farið út úr heimsfaraldrinum og óvíða er smit- og dánartíðni jafn há og þar. Nær 690.000 manns hafa greinst með COVID-19 þar í landi og um 20.700 dáið úr sjúkdómnum, í landi þar sem 11,5 milljónir manna búa.
Strangar sóttvarnareglur eru í gildi í Belgíu. Öllum sem það geta er skylt að stunda vinnu sína að heiman. Grímuskylda er alstaðar þar sem fólk kemur saman, svo sem í verslunum, almenningssamgöngum og stofnunum. Verslanir eru opnar, en strangar reglur gilda um hámarksfjölda og -viðveru, handþvott og fleira.
Strangar reglur um góðra vina fundi og mikið um lokanir
Aðeins er heimilt að eiga náin samskipti við eina manneskju utan eigin heimilisfólks og ekki má bjóða fleiri en einum í heimsókn hverju sinni. Að hámarki fjögur mega hittast utan dyra.
Þjónusta sem krefst beinnar snertingar eða mikillar nándar, svo sem hjá hársnyrti- og nuddstofum, er ekki í boði og kaffihús, veitingastaðir og krár eru lokuð. Kvikmyndahús, leikhús, tónleikastaðir, skemmti- og dýragarðar - allt er þetta lokað, en bókasöfn, listasöfn og leikvellir eru opnir.
Ekki mega fleiri en 15 fullorðnir sækja trúarsamkomur eða -þjónustur á borð við jarðarfarir, og óheimilt er að koma saman til erfidrykkju að jarðarför lokinni og svo má lengi áfram telja.