Ríflega fimmtíu þúsund manns hafa látist af völdum COVID-19 í Þýskalandi. Robert Koch sóttvarnarstofnunin greindi frá þessu í morgun.
Í tilkynningu frá stofnuninni sagði að 859 hefðu látist úr sjúkdómnum síðasta sólarhring, þannig að 50.642 væru nú látnir af völdum hans. Hátt í átján þúsund hefðu greinst með kórónuveirusmit síðasta sólarhring og væri heildarfjöldi smitaðra í Þýskalandi frá upphafi faraldursins kominn yfir 2,1 milljón.