Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vill að lögregla fari yfir verkferla

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómsmálaráðherra hefur farið þess á leit við lögreglu að hún fari yfir og endurskoði verkferla í málum sem tengjast ofneyslu fíkniefna. Hún telur mikilvægt að efla eftirlit með störfum lögreglu og tryggja upplýsingagjöf til aðstandenda látinna.

 

Kveikur fjallaði í gær um rannsókn lögreglu á andláti Perlu Dísar Bachmann Guðmundsdóttur sem lést aðeins 19 ára á heimili kærasta síns.

Lögreglan telur að Perla hafi látist af völdum ofneyslu fíkniefna en margt bendir hins vegar til þess að rannsókninni hafi verið ábótavant og að veigamiklir þættir hafi aldrei verið skoðaðir.

Móðir Perlu segir að vinnubrögð lögreglu hafi litast af fordómum. Þá hafi hún ekki mátt fá upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar þar sem hún var ekki talin aðili máls - eins og það var orðað.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur fundað með foreldrum Perlu.

„Þau bentu á ákveðin atriði sem ég lét strax fara yfir meðal annars til réttarfarsnefndar sem hefur nú til skoðunar hvernig aðkoma aðstandenda látinna brotaþola getur verið að málum. Þá bæði í samtali við lögreglu og líka kannski upplýsingum og rannsókn ef svo ber undir. Einnig hef ég verið að efla störf nefndar um eftirlit með lögreglu og mælti fyrir frumvarpi hér í þinginu í gær til að hún geti bæði hraðað sinni málsmeðferð og afgreitt mál hraðar,“ segir Áslaug.

Ráðherra hefur nú farið þess á leit að lögreglan endurskoði verkferla í svona málum.

„Ég átti samtal við alla lögreglustjóra landsins í síðustu viku um þessi fíkniefnamál í heild sinni. Einmitt viðhorf og hvar við getum gert betur og nú eru allir lögreglustjórar landsins að skoða þessi mál hjá sér, skoða dæmin svo við getum haldið þessari vinnu áfram,“ segir Áslaug.