Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tókust á um styttingu vinnuvikunnar í borgarráði

22.01.2021 - 09:59
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
162 starfsstaðir Reykjavíkurborgar hófu nýtt ár með því að stytta vinnuvikuna niður í 36 klukkustundir. Þetta kemur fram í minnisblaði mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar um stöðu styttingar vinnuvikunnar sem var rætt á fundi borgarráðs í gær.

Vinna áfram að útfærslum

Í minnisblaðinu segir að framundan sé mikil vinna við að innleiða þær tillögur um styttingu vinnuvikunnar sem nú hafa verið staðfestar. Til dæmis þurfi að bæta vinnustaðamenningu, nýtingu vinnutíma og innleiða tækninýjungar sem starfsfólk hefur komið með hugmyndir að. Svið borgarinnar fylgist vel með framgangi verkefnisins og geri ýmsar mælingar meðal starfsfólks og notenda þjónustunnar.

Meirihlutaflokkarnir þrír, Samfylkingin, Viðreisn og Píratar lögðu fram bókun um að sjálfsagt þyrfti áfram að slípa til útfærslur á ólíkum starfstöðum og sníða vankanta þar sem þeir væri. Áfram yrði haft samráð við verkalýðshreyfingu, stjórnendur og starfsfólk undir forystu mannauðs- og starfsumhverfissviðs vegna útfærslna.

Þjónustuskerðing bitni á „vinnandi mæðrum“

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun þess efnis að mikilvægt væri að tryggja að stytting vinnuvikunnar leiddi ekki til þjónustuskerðingar á leikskólum Reykjavíkurborgar. Tryggja þyrfi leikskólunum nauðsynlegan stuðning til að útfæra styttinguna á farsælan hátt. „Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á óskerta leikskólaþjónustu í Reykjavík enda koma skerðingar verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjuhópum, fólki með lítinn sveigjanleika í starfi og fólki af erlendum uppruna,“ segir þar.

„Umbætur eða afturför?“

Í minnisblaðinu er tæpt á því að með styttingunni afsali starfsfólk sér forræði á neysluhléum. Hlé á vinnustöðum séu aðlöguð að styttingu og tryggt að starfsfólk fái hvíldar- og neysluhlé yfir vinnudaginn. Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins lýstu yfir áhyggjum af því.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins lagði fram bókun þar sem kom fram að það væri augljóst að verkalýðsghreyfingin setti fram kröfur sem starfsmenn kærðu sig ekki um. Þar var þeirri spurningu varpað fram hvort styttingin væri til þess fallin að skerða lífsgæði starfsfólks og hvort breytingarnar væru afturför frekar en umbætur. 

„Þeir starfsmenn sem taka á sig fulla styttingu taka á sig skerðingar sem sama verkalýðshreyfing hefur barist fyrir áratugum saman eins og t.d. matar- og kaffitímum – sem nú er kallað „neysluhlé“. Starfsmaður má ekki yfirgefa starfsstöð nema að stimpla sig út og afsalar sér neysluhléum til að styttingin nái fram að ganga – mætti jafnvel kalla það vinnustaðarfangelsi. Allt þetta skapar neikvæðan móral og togstreitu milli starfsmanna og þá er stutt í eftirlitslögguna,“ segir í bókuninni. 

„Kreista eigi hverja mínútu“

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lýsti svipuðum efasemdum og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins. „Fulltrúa Flokks fólksins finnst ámælisvert að ekki hafi fylgt fjármagn í verkefnið þannig að hægt sé að tryggja starfsfólki hvíld í vinnunni og að það fái hlé. Stytting vinnuvikunnar er kjarabót og því mikilvægt að áhrifin verði ekki neikvæð. Hlúa þarf að starfsfólkinu. Allt byggist á vellíðan þeirra í starfi. Svo virðist sem kreista eigi hverja mínútu og talað er eins og nýting tímans hafi ekki verið nógu góð áður,“ segir í bókun Flokks fólksins. 

Hvernig var styttingin útfærð?

Í minnisblaðinu segir að styttingin á hverjum vinnustað hafi verði útfærð á eftirfarandi hátt: Vinnutímahópar voru skipaðir starfsfólki og stjórnendum á öllum starfsstöðum borgarinnar og hófu vinnu í október. Í sérstökum umbótasamtölum vinnutímahópanna við starfsfólk var gengið út frá því að bæta nýtingu vinnutímans. „Í umbótasamtölum var lagt upp með að skoða hvernig mætti auka skilvirkni, bæta þjónustu og tryggja betur gagnkvæman sveigjanleika starfsfólks og starfsstaða sem og samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs. Vinnutímahópar gerðu greiningu á þjónustu og hvar helstu álagspunktar væru og ræddu síðan sóknarfæri í vinnufyrirkomulagi, verklagi, samvinnu og tímastjórnun við starfshópinn.“

Vinnutímahópar lögðu fram tillögu að breyttri vinnutilhögun sem starfsfólk greiddi atkvæði um. Tillagan mátti ekki fela í sér aukinn kostnað eða skerðingu á þjónustu. „Niðurstaðan er sú að langflestir starfsstaðir borgarinnar eru að fara í 36 stunda vinnuviku eftir kosningar starfsfólks um tillögur að styttingu á starfsstað og eru að fara gera umbætur í sinni starfsemi til að ná fram betri nýtingu á vinnutímanum,“ segir í minnisblaðinu.