Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þóra áfrýjar dómi í máli gegn Íslensku óperunni

22.01.2021 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þóra Einarsdóttir óperusöngkona hefur ákveðið að áfrýja til Landsréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði fyrr í mánuðinum Íslensku óperuna af kröfu hennar um vangoldin laun í óperunni Brúðkaupi Fígarós haustið 2019. Í tilkynningu segir hún að málið hafi að hennar mati fordæmisgildi fyrir aðra listamenn og íslenskan vinnumarkað í heild.

Félagsfundur Klassís, Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, lýsti fyrr í mánuðinum yfir vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, vegna stjórnunarhátta á undanförnum árum. Í yfirlýsingu saka söngvarar óperustjóra meðal annars um að hafa nýtt sér trúnaðarákvæði í samningum við söngvara til að höggva í samstöðu þeirra og benda á fylgni milli þess að söngvarar leiti réttar síns og þess að þeir fái ekki aftur vinnu hjá Íslensku óperunni. Óperustjóri hafnar ásökunum félagsins. 

Þá hefur Bandalag íslenskra listamanna gagnrýnt stjórnunar- og rekstrarhætti Óperunnar og sagt stofnunina bjóða óheilbrigt starfsumhverfi.

Telja dóminn rangan í öllum meginatriðum

„Það er mat mitt, BÍL, FÍH og lögmanna okkar að dómur héraðsdóms sé rangur í öllum meginatriðum. Í honum felast alvarleg tíðindi fyrir allt listafólk sem semur um kaup sín og kjör fyrir einstök verkefni við listastofnanir sem m.a. njóta opinbers fjárframlags,“ segir í tilkynningu frá Þóru.

Hún telur að dómurinn gangi þvert á þá lögfestu meginreglu vinnuréttar að samningar um lakari kjör en kveðið er á um í kjarasamningum séu að engu hafandi. Dómurinn telji að túlka skuli allan vafa um það hvað skuli greiða samkvæmt kjarasamningum, listamanninum í óhag: „Í dóminum kemur fram að þrátt fyrir gildandi kjarasamninga milli stéttarfélaga og listastofnana sé heimilt að greiða listamönnum minna en lágmarkskjör samkvæmt gildandi kjarasamningum.“ 

Dómurinn reki fleyg í samstöðu listafólks

Þóra telur dóminn reka fleyg í samstöðu listafólks „sem það hefur leitast við að skapa með því að nýta lagalegan rétt sinn til að stofna stéttarfélög til að semja um lágmarkskjör félagsmanna“. Hún bendir á að listastofnanir séu í yfirburðaaðstöðu þegar kemur að því að semja um endurgjald við listamenn.

Verði niðurstöðunni ekki breytt missi listamenn þau lágmarksréttindi sem kveðið er á um í kjarasamningum Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) sem Íslenska óperan og aðrar listastofnanir hafi skuldbundið sig til að virða. Reglan um að kjarasamningar um lágmarkskjör séu virtir hafi verið óumdeild hér á landi í áratugi og nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvort sá réttur launafólks sé enn til staðar.