Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Það eru allir að missa sig yfir þessu“

22.01.2021 - 19:49
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RUV
Vettlingar Bernies Sanders stálu senunni á innsetningarathöfn Joes Bidens og hafa farið um allt á samfélagsmiðlum síðan. Prjónarar eru að missa sig, segir Hildur Sveinsdóttir, starfsmaður Handprjónasambandsins, sem efast um að vettlingarnir séu úr íslenskum peysum.

Það er yfirleitt mikið um dýrðir við embættistöku forseta Bandaríkjanna og það var engin undantekning í ár þó öryggisgæslan væri mun meiri en venjulega. Í þetta skipti var það ekki klæðnaður stjarnanna sem stóð upp úr heldur Bernie Sanders, eða kannski aðallega vettlingarnir. 

Nær allir sem vettlingi geta valdið hafa dreift myndum af Bernie á samfélagsmiðlum og komið honum fyrir í ýmsum aðstæðum, meðal annars í frægum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og á þekktum ljósmyndum úr seinni heimsstyrjöldinni. Vettlingarnir eru úr endurunnum lopapeysum sem Bernie fékk að gjöf fyrir nokkrum árum, og vanir prjónarar þekkja vel mynstrið en það er líklega komið frá íslensku lopapeysunni. „Minn áhugi liggur í prjónaheiminum og ég fylgi áhrifavöldum þar, bæði hönnuðum og búðaeigendum og það eru allir að missa sig yfir þessu, hvað þetta sé æðislegt. Sáuð þið vettlingana hans Bernie, og það eru strax komnar uppskriftir upp á þessum prjónasíðum, og þetta er bara frábær endurnýjun á peysum sem eru búnar,“ segir Hildur. 

Hún segir að þó mynstrið sé svipað sé ólíklegt að vettlingarnir séu prjónaðir úr íslenskum peysum. Og þó að áhuginn sé mikill á samfélagsmiðlum, sé hann heldur minni í raunheimum, og fáir spurt um vettlingana í búðinni. „Nei reyndar ekki, ég þarf kannski að fara að láta prjóna þetta og selja þetta í búðinni.“ 

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV