Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tap þrátt fyrir hetjulega frammistöðu

epa08958471 Players of Iceland react during the match between Iceland and France at the 27th Men's Handball World Championship in Cairo, Egypt, 22 January 2021.  EPA-EFE/Petr David Josek / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL

Tap þrátt fyrir hetjulega frammistöðu

22.01.2021 - 18:30
Ísland mátti þola tveggja marka tap á móti sterku liði Frakka, 28-26 í milliriðlakeppni HM karla í handbolta í Egyptalandi. Íslenska liðið spilaði góðan leik og var í fínum séns að vinna leikinn.

Ísland var fyrir leikinn með tvö stig í riðlinum en Frakkar með fullt hús stiga með sex. Sigvaldi Björn Guðjónsson gerði fyrsta mark leiksins og eftir rúmar tíu mínútur var allt jafnt 6-6 þegar Sigvaldi jafnaði metin. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður voru Frakkar með tveggja marka forystu 9-7. Íslenska liðið átti í vandræðum sóknarlega og franska liðið refsaði um leið og þremur mörkum munaði þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri halfleik.

Íslenska vörnin var hins vegar í góðu lagi og íslenska liðið skoraði úr tveimur hraðaupphlaupum í röð og staðan 12-13. Frakkar bættu hins vegar við og voru með tveggja marka forystu í leikhléi 14-16. Seinni hálfleikur byrjaði af krafti og Bjarki Már jafnaði metin í 17-17 eftir rúmar tvær mínútur. Í seinni hálfleik kviknaði heldur betur á Viggó Kristjánssyni sem gerði sex mörk fyrstu tíu mínúturnar, og staðan orðin 22-20 fyrir Íslandi.

Frakkarnir voru þó ekki búnir að gefast upp og jöfnuðu leikinn á ný, og staðan var jöfn 24-24 þegar fimm mínútur voru eftir. Franska liðið nýtti lokamínúturnar hins vegar betur en það íslenska sem átti í erfiðleikum með að skora, og Hugo Descat kom Frakklandi í þriggja marka mun á síðustu mínútunni. Sigvaldi Björn Guðjónsson lagaði stöðuna en lokatölur 26-28 tveggja marka sigur Frakklands. Íslenska spilaði leikinn þó vel þrátt fyrir tapið.