Finna fyrir félagslegri einangrun
Björg segir að flestir finni að einhverju leyti fyrir innilokunarkennd í þessu ástandi. Allt félagslíf sé komið á hliðina.
„Fólk er aðskilið frá fjölskyldu og vinum á má í raun ekki heimsækja nokkurn mann eins og staðan er núna. Margir finna vel fyrir því. Auðvitað eru aðstæður fólks mismunandi. Margir sem búa einir upplifa félagslega einangrun. Sumir hafa verið einir í mjög langan tíma. Sumir af mínum skjólstæðingum og fólk sem ég tala við í gegnum vinnuna hafa nánast ekki farið út fyrir hússins dyr frá því í fyrravor. Það hefur auðvitað gríðarleg áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu,“ segir Björg. Hún segir þeir sem eru heima, með heimilisfólki sínu, finni fyrir takmörkunum á annan hátt.
„Ekki endilega einangrun heldur fyrir því að hafa of mikla nánd í langan tíma.Komast ekki út og hafa ekki pláss fyrir aðra hluti heldur en að vera í kringum fjölskylduna. Það auðvitað eykur streitu. Margir foreldrar finna fyrir því sérstaklega þegar skólar eru lokaðir. Það sé erfitt að vinna heima og sinna heimanámi barna á sama tíma. Þannig að mér sýnist að streita hafi aukist nánast út um allt samfélagið jafnt og þétt.“
Björg segir að streitan taki á sig margar myndir. Hún hafi áhrif á ónæmiskerfið og líkamlega heilsu.
„Svo getur hún komið fram í kvíðaeinkennum. Sumir sem eru mjög hræddir við smit, upplifa jafnvel hálfgerðan ofsakvíða og eru jafnvel að lesa fréttir dag eftir dag sem bæta við kvíðann að smitast og smita aðra. Þannig að kvíði hefur aukist hjá sumum. Fólk sem upplifir einangrun eða erfiðar félagslegar aðstæður getur upplifað þunglyndiseinkenni. Eitthvað virðist vera um að sjálfsvígstilraunum, eða fólki í sjálfsvígshugleiðingum, hafi fjölgað. Það erfitt að segja til um það vegna þess að tölur hafa ekki verið birtar,“ segir Björg.
Krísutilfellum fjölgar
Allt þar til í haust starfaði Björg við háskóla þar sem hún veitti nemendum sálfræðiþjónustu. Hún segir að sóttvarnatakmarkanir hafi haft mikil áhrif á nemendur og krísutilfellum fjölgað mikið. Þeim hafi fjölgað enn meira eftir að hún hætti í haust.
„Nemendum sem eru í sjálfsvígshættu. Upplifa jafnvel heimilisofbeldi og eru fastir á heimili með jafnvel gerendum. Nemendur sem eru í erfiðum aðstæðum og hafa jafnvel misst vinnuna og eiga þá á hættu að missa heimilið og verða heimilislausir. Þannig að allsherjarkrísutilfellum hefur fjölgað mjög mikið.“
Þakklát fyrir að komast heim
Björg hefur átt þess kost að koma heim til Íslands eftir að faraldurinn hófst. Hún segir ljóst að harðar aðgerðir í Bretlandi hafi haft mikil áhrif á samfélagið. Útgöngubannið hafi verið kynnt sem neyðarúrræði.
„Það átti að standa yfir í stuttan tíma en svo hefur þetta dregist mjög á langinn og verið nýtt aftur og aftur sem úrræði. Nú virðist staðan vera sú að það sér ekki fyrir endann á þessu. Það er verið að tala um þetta útgöngubann sem er í gildi núna gildi jafnvel fram yfir páska. Verði jafnvel notað aftur í framtíðinni ef smitum fjölgar,“ segir Björg
Hún segist vera þakklát fyrir að hafa komist heim til Íslands í faraldrinum. Hún hafi farið heim þrisvar sinnum á síðasta ári.
„Ég hef fundið hvað mér hefur verið létt þegar ég hef komið til Íslands. Ég finn að það er afslappaðra andrúmsloft þó að ég finni líka að takmarkanir og faraldurinn hafi líka valdið mjög miklum breytingum á Íslandi. Takmarkanir sem settar hafa verið á í Bretlandi hafa bæði verið harðari og varað í lengri tíma. Það hefur í raun verið gengið mun lengra en ég átti von á að Bretar myndu gera. Þjóð sem hefur haldið frelsinu á lofti. Var kannski ekki land sem mig hefði grunað að myndi ganga svona langt í svona hörðum takmörkunum. Þannig að ég hef fundið mikinn mun og ég gleðst fyrir hönd Íslendinga geta svona aðeins um frjálsara höfuð strokið heldur en við gerum hér,“ segir Björg Sigríður Hermannsdóttir.