
Staðfesta dóm yfir manni sem keyrði á nágranna sinn
Ríkissaksóknari áfrýjaði dómi Héraðsdóms Suðurlands, sem féll í júní árið 2019, til Landsréttar í ágúst sama ár, og krafðist þess að refsingin yrði þyngd.
Ákærði bar það fyrir sig að hafa þurft að verjast árásum brotaþola. Hann hefði óttast um líf sitt og konu sinnar, enda hefði brotaþoli oft ráðist á hann og í þetta sinn hótað konunni hans. Aðalsönnunargögn málsins eru myndskeið úr öryggismyndavélum sem virðast sýna nákvæmlega málsatvik sem eru rakin mjög ítarlega í dómnum.
Ákærði áður kært brotaþola fyrir eignaspjöll
Deilur höfðu staðið yfir um árabil milli ákærða og brotaþola um lokun heimreiðar að heimili ákærða. Fyrir dómi sagðist ákærði lengi hafa deilt við brotaþola um eignarétt yfir heimreiðinni og landi þar í kring en brotaþoli sagðist hafa lokað heimreiðinni í öryggisskyni, til dæmis til að koma í veg fyrir hraðakstur.
Lögregla var fyrst kölluð til 21. desember 2017 á heimili ákærða í Flóahreppi vegna ætlaðra skemmdarverka sem hann sagði brotaþola hafa unnið á bíl hans. Ákærði kærði brotaþola fyrir eignaspjöll en í frumskýrslu þess máls kemur fram að á leið á vettvang hafi lögreglu borist tilkynning um að ekið hafi verið á eldri mann en sá hefði ekki óskað eftir aðstoð sjúkraliðs. Þegar lögregla fór svo að heimili brotaþola hafi hann haft hrufl og mar hægramegin á höfði, en ekki viljað ræða það við lögreglu.
Það mál, sem sneri að eignaspjöllum, var látið niður falla með ákvörðun héraðssaksóknara í byrjun desember 2018 og síðar í sama mánuði kærði brotaþoli, í því máli sem dómur féll í dag, ákærða fyrir tilraun til manndráps.
Ákærði var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi og einnig gert að greiða 700.000 krónur í skaðabætur. Landsréttur staðfesti dóminn, og þar að auki var hinum sakfellda gert að greiða 1,2 milljónir í áfrýjunarkostnað.