„Heilbrigður haus skilar góðum leik“
Í Bolungarvík er nýbúið að stofna rafíþróttafélag og þar er í forsvari Þorbergur Haraldsson, sem spilað hefur tölvuleiki frá því hann var barn. Hann segir ekki mikið þurfa til svo hægt sé að stofna slíkt félag. „Það þarf náttúrulega tölvubúnaðinn og húsnæði undir tölvubúnaðinn og fyrir æfingar. Góð nettenging skiptir náttúrlega miklu máli,“ segir Þorbergur.
Félagið hefur komið sér fyrir í húsinu Hrafnakletti, húsnæði í eigu Ungmennafélags Bolungarvíkur sem aðallega hefur verið notað undir ýmiskonar viðburði. „Það er ljósleiðari hérna. Þetta var eiginlega fullkominn staður,“ segir hann. Í Hrafnakletti er aðstaða fyrir sex iðkendur, sem að sögn Þorgbergs hentar vel til að byrja með. Svo er markmiðið að fá fleiri tölvur.