Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Rafíþróttadeildir: „Spretta núna upp eins og gorkúlur“

Mynd: Halla Ólafsdóttir / -

Rafíþróttadeildir: „Spretta núna upp eins og gorkúlur“

22.01.2021 - 15:03
Rafíþróttadeildum um allt land hefur fjölgað mikið síðustu árin og skilningur á rafíþróttum aukist. Uppbyggingin hefur verið mest innan stóru íþróttafélaganna en slík starfsemi nær í auknu mæli til smærri staða. Í Bolungarvík er nýbúið að stofna rafíþróttafélag og á Egilsstöðum tók móðir tölvuleikjaspilara sig til og stofnaði rafíþróttadeild eftir að hafa fengið nýja sýn á áhugamál sonarins.

„Heilbrigður haus skilar góðum leik“

Í Bolungarvík er nýbúið að stofna rafíþróttafélag og þar er í forsvari Þorbergur Haraldsson, sem spilað hefur tölvuleiki frá því hann var barn. Hann segir ekki mikið þurfa til svo hægt sé að stofna slíkt félag. „Það þarf náttúrulega tölvubúnaðinn og húsnæði undir tölvubúnaðinn og fyrir æfingar. Góð nettenging skiptir náttúrlega miklu máli,“ segir Þorbergur. 

Félagið hefur komið sér fyrir í húsinu Hrafnakletti, húsnæði í eigu Ungmennafélags Bolungarvíkur sem aðallega hefur verið notað undir ýmiskonar viðburði. „Það er ljósleiðari hérna. Þetta var eiginlega fullkominn staður,“ segir hann. Í Hrafnakletti er aðstaða fyrir sex iðkendur, sem að sögn Þorgbergs hentar vel til að byrja með. Svo er markmiðið að fá fleiri tölvur. 

Þorbergur Haraldsson, formaður Rafíþróttafélag Bolungarvíkur
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - Aðsend
Formaður Ungmennafélags Bolungarvíkur hafði samband við Þorgberg Haraldsson þegar til stóð að stofna rafíþróttafélag í Bolungarvík. Þorbergur er nú formaður félagsins.

Æfingarnar eru settar upp samkvæmt leiðbeiningum frá Rafíþróttafélagi Íslands, sem eru sambærilegar við æfingar hjá öðrum íþróttafélögum þar sem æft er í 90 mínútur. „Fyrsti hálftíminn fer í líkama og sál og restin í æfingar í leiknum,“ segir Þorbergur. Hann segir að áhersla sé á líkamlega og andlega heilsu. „Eins og hann sagði framkvæmdastjóri RÍSÍ þegar hann var með námskeið hérna, að heilbrigður haus skilar góðum leik. Það skiptir meginmáli í þessu.“

Ný sýn á áhugamál sonarins

Sigrún Jóna Hauksdóttir á Egilsstöðum á unglingsdreng sem spilar mikið tölvuleiki. Hún fékk nýja sýn á áhugamál sonarins eftir að hafa horft á umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kveiks um rafíþróttir. Þar kom meðal annars fram að nauðsynlegt væri fyrir foreldra að virða tölvuleiki sem áhugamál krakkanna sinna og sýna því áhuga.

„Ég tók þetta svoldið til mín og sagði að kannski væri tími til að breyta þessu og fara að sýna hans áhugamáli aðeins meiri skilning,“ sagði Sigrún Jóna í samtali við Síðdegisútvarp Rásar 2, þegar deildin var nýstofnuð. „Af því svo á ég líka eldri dóttur sem er fimleikastelpa og ég er búin að sitja í stjórnum og þvælast með henni út um allt, og mikið stolt sem fylgir því, á meðan sonurinn hafði frekar fengið neikvæða athygli fyrir sitt áhugamál,“ rifjar hún upp. 

Mynd: Sigrún Jóna Hauksdóttir / Aðsend
Sigrún Jóna fékk nýja sýn á áhugamál sonar síns. Hún hvetur foreldra til að setjast niður með börnum sínum og vera forvitið um þetta áhugamál.

„Líka skemmtilegt áhugamál fyrir foreldrana“

Sigrún Jóna tók málin í sínar hendur og hóf samtal við sveitarfélagið um stofnun rafíþróttadeildar innan íþróttafélagsins Hattar á Egilsstöðum. Nú er deildin búin að finna hentugt húsnæði en beðið er eftir auknu fjármagni til tækjakaupa og fyrir ljósleiðaratengingu í aðstöðuna. Þau hyggjast hefja æfingar haust og Sigrún Jóna segist finna fyrir miklum áhuga úr nærsamfélaginu. 

Hún segir jákvætt að víða sé verið að stofna rafíþróttadeildir. „Þetta virðist spretta svoldið eins og gorkúlur núna, virðist vera,“ segir hún. Og stofnun rafíþróttadeilda er ekki einungis fyrir krakkana, heldur er þetta líka félagskapur fyrir foreldrana. „Það þarf að reka þetta og það þarf að mynda stjórnir, þannig að þetta er líka skemmtilegt áhugamál fyrir okkur foreldrana,“ segir hún. 

Fjallað var um rafíþróttir í Sögum af landi á Rás 1. Innslagið í heild sinni má heyra í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Erlent

Ungur Færeyingur ein auðugasta rafíþróttastjarna heims

Íþróttir

Rafíþróttir héldu börnum virkum í samkomubanni

Tölvuleikir eru áhugamál sem er allt í lagi að stunda

Innlent

Foreldrar þurfi að stíga inn í heim barnanna