Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Portúgal vann nauðsynlegan sigur á Sviss

Mynd: EPA-EFE / AFP POOL

Portúgal vann nauðsynlegan sigur á Sviss

22.01.2021 - 16:00
Portúgal á áfram góða möguleika á að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum HM karla í handbolta. Portúgal vann Sviss með fjögurra marka mun í fyrsta leik dagsins í milliriðli Íslands.

Portúgal var í 2. sæti riðilsins með 4 stig en Sviss í 5. sæti með 2 stig fyrir leikinn. Portúgalar byrjuðu leikinn af meiri krafti og komust í 3-1 en Sviss náði að jafna. Andy Schmid var sem fyrr potturinn og pannan í sóknarleik Sviss og skoraði ellefu mörk í leiknum, þar af sjö mörk úr vítum, í jafnmörgum skotum.

Portúgalska liðið var þó ákveðnara og var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17-15. Portúgal náði svo fjögurra marka forskoti í stöðunni 23-19, en Sviss gerði vel og minnkaði muninn í eitt mark í 30-29 þegar skammt var eftir. Svisslendingar gátu svo jafnað metin, en Cedrie Tynowski skaut framhjá markinu. Portúgal hleypti Sviss ekki nær sér og vann að lokum fjögurra marka sigur, 33-29.

Portúgal er því komið með 6 stig, eins og Frakkland. Frakkar eiga þó leik til góða á móti Íslandi klukkan 17:00. Noregur er svo með 4 stig í 3. sæti en getur jafnað Portúgala að stigum með sigri á Alsír í kvöld.