Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lukkan og norsk ,,auðlindablessun“

22.01.2021 - 17:00
Mynd: EPA / EPA
Náttúruauðlindir eru ekki alltaf nýttar til góðs. Mýmörg dæmi um lönd sem eru þjökuð af svokallaðir ,,auðlindabölvun.“ Nýting Norðmanna á sinni olíu gefur þó tilefni til að tala um ,,auðlindablessun“ og Norski olíusjóðurinn er ein skýring þess. Áhugavert umhugsunarefni í tilefni af umræðum um íslenskan þjóðarsjóð, sem nú hefur verið frestað vegna veirufaraldursins.

Upphaf norska sæluríkisins snúið í leikform

Í augum útlendinga lítur Noregur gjarnan út eins og algjört lukkuland eða sæluríki, lífið er gott og þjóðarhagur blómlegur. Norsku þættirnir Sæluríkið segja söguna af upphafi norska olíuævintýrisins í Stafangri. Stórútgerðarmanni bæjarins finnst sjálfsagt að ríkið stýri olíuvinnslunni en það eigi ekki að reka olíufélag. Útgerðarfyrirtækin séu til dæmis góð í rekstri.

Anna, dóttir bláfátæks bónda, bendir honum á að hann sem útgerðarmaður hafi enga þekkingu á olíu og hagnaðurinn geti orðið gríðarlegur. Já einmitt, þeir sem eru vanir að sýsla með auðæfi eru bestir í því, álítur útgerðarmaðurinn. ,,Finnst þér í alvörunni að af því þú ert réttur maður á réttum tíma á réttum stað þá eigi afkomendur þínir í marga ættliði að vera forríkir?“ spyr Anna en útgerðarmaðurinn lætur sig ekki.

Olíustefnan og almannagæði norsku vatnalaganna 1909

Alveg frá því norsku olíudraumarnir fóru að rætast á 7. áratugnum var pólitíska stefnan sú að já, ríkið ætti að stjórna olíuvinnslunni, líka reka ríkisolíufélag og hagnaðurinn að koma öllum til góða. Viðmiðunin um almannagæði var sótt í norsku vatnalögin frá 1909 sem kváðu á um að norska þjóðin ætti þá auðlind og ætti að njóta efnahagslegs ávinnings hennar.

Íslensk togstreita eignaréttar og almannagæða frá upphafi

Fossar og vatnsréttur voru líka til umræðu á Íslandi á fyrstu áratugum 20. aldar og þar tókust á sjónarmið um eignarétt annars vegar. Hins vegar um almannagæði, að hverir, laugar og ölkeldur skyldu ,,með landsgæðum taldar,“ eins og þá heyrðist.  

Eignarétturinn varð ofan í vatnalögunum 1923. Og síðan lengi vel almennt togstreita milli þessara tveggja sjónarmiða í íslenskum umræðum um náttúruauðlindir. Nú síðast um auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar.

Andstætt Danmörku: ekki norskt einkaleyfi á olíuvinnslu

En þá að norsku olíunni. Erlendu olíufélögin voru höll undir einkaleyfi gegn því að fjármagna olíuleitina. Í Sæluríkinu biðja fulltrúar bandarísks olíufélags um smágreiða, einkaleyfi eins Mærsk-samsteypan fékk í Danmörku þó Mærsk hefði reyndar enga sérþekkingu þá á olíu. Nei, kom ekki til greina, Norðmenn ætluðu ekki að vera eins vitlausir og Danir.

Familien Nyman. Ingrid (Pia Tjelta), Fredrik (Per Kjerstad) og Christian (Amund Harboe)
 Mynd: NRK
Lykkeland. Norskur sjónvarpsþáttur.

Sex árum eftir olíusjóðurinn var stofnaður var greitt í hann

Alveg frá því 1960 að því var slegið föstu að olían í norsku landgrunni væri þjóðarauðlind var rætt um þjóðarsjóð til að forvalta olíuauðinn handa komandi kynslóðum. Framan af virtust allar hagnaðarkúrvur ekki geta stefnt annað en upp og upp. Snarleg olíuverðlækkun 1986 var áminning um að nei, í hinni fögru nýju olíuveröld giltu líka lögmál framboðs og eftirspurnar. Lög um olíusjóðinn voru samþykkt 1990 en ríkið fór ekki að borga í hann fyrr en 1996.

Stofnun íslensks þjóðarsjóðs frestað vegna Covid

Eins og kom fram í Speglinum í vikunni lagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fram frumvarp um þjóðarsjóð í október 2019. Það var ekki afgreitt þann vetur og hefur, samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins til Spegilsins ekki verið lagt fram á yfirstandandi þingi því veirufaraldurinn hefur gjörbreytt aðstæðum. Einnig nefnt að til álita komi að stofna slíkan sjóð þegar efnahagsaðstæður batna.

Aldrei eða alltaf rétti tíminn til að stofna þjóðarsjóð – og hægt að stofna fyrst, greiða svo

Batterí eins og þjóðar- eða auðlindasjóður er þannig séð aldrei stofnaður á réttum tíma. Það hefði mátt gera í Noregi í byrjun níunda áratugarins þegar olíuauðurinn olli mikilli þenslu. Og á Íslandi þegar kvótakerfinu var komið á laggirnar. En já, eftiráhyggja dugir skammt, gildir bara að betra seint en aldrei. Og samanber Norska olíusjóðinn: hægt að stofna sjóð en greiða í hann síðar.

Olíusjóðurinn fjárfestur eins og gjaldeyrisvaraforði = erlendis

Í raun er Norski sjóðurinn fjárfestur eins og gjaldeyrisvaraforði, allur fjárfestur erlendis, ekki króna heima fyrir. Í fyrstu var einungis fjárfest í ríkisskuldabréfum, síðar í hlutabréfum, nú nýlega einnig í fasteignum. Og sjóðnum settar margslungnar siðareglur.

Sanngirni útilokar ekki snilld

Alþjóðlegu olíufélögunum gramdist á sínum tíma hvað Norðmönnum var tíðrætt um ríkisafskipti og sanngirni. Í Sæluríkinu segir bandarískur lögfræðingur við bæjarstjórnarfulltrúa í Stafangri að það sé aldrei að vita hvað Norðmönnum detti í hug því í Noregi skipti meira máli að vera sanngjarn en snjall.

Reksturinn á Norska olíusjóðnum sýnir hins vegar að sanngirni útilokar ekki snilld – rekstur sjóðsins tekist vel hingað til. Sjóðurinn á sinn þátt í auðlindablessun norska lukku- og sæluríkisins.