Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Guðmundur Felix sýnir nýju handleggina

Mynd: Sylwía Grétarsson / RÚV
Guðmundur Felix Grétarsson sem gekkst fyrir skemmstu undir handleggja- og axlaágræðslu á sjúkrahúsi í Lyon í Frakklandi, sýnir nýju handleggina í fyrsta skipti í myndskeiði sem fréttastofa hefur undir höndum og verður sýnt verður á blaðamannafundi lækna Guðmundar í dag. Guðmundur segir að það hafi verið upp á dag, 23 árum eftir að hann lenti í slysinu þar sem hann missti handleggina, sem handleggjagjafi hafi fundist.

„Mig langar að nota tækifærið og sýna ykkur afraksturinn eins og það er í dag,“ segir Guðmundur. „Þetta lítur mjög vel út en það segir ekki alla söguna. Ég veit ekkert hvernig þessi aðgerð heppnaðist fyrr en eftir ca 3 ár. Því nú tekur við þriggja ára endurhæfing. Taugarnar mínar þurfa að vaxa út í handleggina. Það er ekkert víst að ég geti notað þá til fulls,“ segir Guðmundur.

Hann þakkar íslensku þjóðinni stuðninginn og segir að þetta hefði ekki verið hægt án hans.  

Tíminn leiðir í ljós hve mikið handleggirnir nýtast

Blaðamannafundur læknateymisins sem framkvæmdi hina flóknu handleggja- og axlaágræðslu hófst á tólfta tímanum og stendur enn. Um 50 læknar og hjúkrunarfræðingar frá 4 sjúkrahúsum í Lyon í Frakklandi tóku þátt í aðgerðinni sem tók um 15 klukkustundir. Læknar sem komu að aðgerðinni sögðu frá því hvernig hún gekk og hvaða þýðingu hún hefur í heimi læknavísindanna. Líkt og Guðmundur lögðu þeir áherslu á að tíminn þyrfti að leiða í ljós hversu mikil not Guðmundur fengi af handleggjunum. 

 

Kominn með tilfinningu í handleggina

Ef allt gengur að óskum fer Guðmundur Felix af gjörgæslu á almenna deild í dag. Eiginkona hans, Sylwia Gretarsson Nowakowska, var hjá honum í morgun og greindi frá því í samtali við franska miðilinn RTL að hann væri kominn með tilfinningu í hendurnar. Hann fyndi fyrir snertingu, þó enn væru fingurnir dofnir og í morgun hefði hann getað hreyft efri hluta handleggsins örlítið, það hafi verið stór áfangi fyrir hann. Á hverjum degi fær hann aðstoð sjúkraþjálfara sem hreyfa hendurnar, en það er sem fyrr segir óljóst hvenær hann getur farið að hreyfa þær sjálfur.