Aldrei þurft að yfirgefa heimilið fyrr
Helena Dýrfjörð hefur búið í Norðurtúni á Siglufirði frá 1983. Hún hefur aldrei fyrr þurft að yfirgefa heimili sitt vegna snjóflóðahættu, ekki einu sinni áður en snjóflóðagarðarnir fyrir ofan byggðina voru reistir. Því kom það flatt upp á hana þegar lögreglan hringdi og tilkynnti um rýminguna.
„Þetta er mjög skrýtin tilfinning. Sérstaklega að þurfa að taka sig til á innan við klukkutíma og varla vita hvað maður átti að taka og hvað ekki,“ segir hún. „Maður hrökk dálítið í kút þegar maður þurfti að taka sig til svona einn, tveir og þrír.“ Rætt var við Helenu í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.
Reið að fá ekki frekari útskýringar
Helena taldi sig ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur þar sem garðurinn var sagður tryggja öryggi sunnanverðrar byggðarinnar. „Þannig að þetta kemur rosalega flatt upp á mann núna allt í einu að þurfa að spá í hvort maður má vera í húsinu sínu eða ekki,“ segir hún. „Og maður er eiginlega bara reiður að fá ekki frekari útskýringar. Og maður er endalaust að fá símtöl, heyrðu, það er ekki snjór þarna í fjallinu, af hverju eruð þið rekin út? Símtöl frá fólkinu sem ekki er rekið út og er ennþá heima hjá sér,“ segir hún.
Hvers vegna núna?
Helena er fædd og uppalin á Siglufirði og segir þessar aðstæður séu ekkert nýtt. Veturinn í fyrra hafi til dæmis verið hrikalegur en aldrei hafi hús verið rýmd þá. Hún segist gera sér grein fyrir að snjóflóðin á Flateyri fyrir ári, þar sem flóðin fóru yfir varnargarðana á tveimur stöðum, hafi áhrif á þessa stöðu núna á Siglufirði.
„Mér finnst samt að við ættum að fá frekari útskýringar á þessu. Af hverju er verið að þessu akkúrat núna,“ segir Helena sem er ósátt við að fá ekki skýringu á því af hverju snjóflóðavarnargarðurinn er allt í einu ekki talinn öruggur, miðað við hvað þeim var tjáð í upphafi þegar hann var reistur.