Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Eins og í einhverri hryllingsmynd“

22.01.2021 - 19:56
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Verkefnastjóri í Gimli, sem fór einna verst út út vatnsflaumnum í Háskóla Íslands í fyrrinótt, segir aðkomuna hafa verið eins og í hryllingsmynd. Rektor skólans vonast til að tryggingar Veitna komi til móts við tjónið.

Enn liggur ekki fyrir hvað varð til þess að sextíu ára kaldavatnsleiðsla við Suðurgötu gaf sig í fyrrinótt með þeim afleiðingum að vatn flæddi um stóran hluta háskólasvæðisins. Slökkviliðið var að störfum í fjórtán klukkutíma og síðan þá hafa verktakar og starfsfólk skólans staðið í ströngu við að lágmarka tjónið.

„Það er talað um að þetta hafi verið ein til tvær Laugardalslaugar sem hafi komið hér inn en sem betur fer var brugðist mjög hratt við. Veitur voru búnar að loka fyrir vatnsflauminn eftir 70 til 75 mínútur og síðan var fólkið hér komið til að lágmarka tjónið og það skipti öllu máli,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Ekki hefur verið lagt mat á hversu mikið tjón hlaust en talið er líklegt að það hlaupi á hundruðum milljóna. „Þetta er bara skelfilegt. Þetta er svo gífurlegt tjón að manni bara fallast hendur,“ segir Björn Auðunn Magnússon, deildarstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands.

Skólinn er ekki tryggður fyrir tjóninu. „Ríkið tryggir ekki en sem betur fer er það þannig að Veitur eru tryggðar og við vonumst eftir því að þær muni geta komið til móts við okkur með þetta tjón,“ segir Jón Atli.

Skrifstofur félagsvísindasviðs í Gimli fóru einna verst út úr vatnsflaumnum og verða ekki nothæfar í mánuði. „Það var enginn hérna þegar ég kom og þetta var bara mjög óhugnalegt. Þetta var svolítið eins og í einhverri hryllingsmynd,“ segir Sigrún Daníelsdóttir Flóvenz, verkefnastjóri hjá Félagsvísindasviði Háskólans.

Eins og margir aðrir hafði Sigrún að mestu unnið heima í faraldrinum. „Ég var búin að vera heima síðan 11. september og mætti á mánudaginn. Ég var svo glöð að vera komin aftur hingað,“ segir Sigrún.

Fyrirlestrasalir í Gimli og á jarðhæð á Háskólatorgi verða ónothæfir næstu mánuði og öll kennsla sem hefði verið þar færist á netið. Rektor segir það ekki gott, þar sem vonast var til að staðkennsla hæfist í meira mæli á þessari önn.

„Núna verður að leita annarra lausna til þess að koma þessu fólki í skólann og það verði ekki mikil röskun á starfinu strax í byrjun vormisseris,“ segir Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs.

Isabel segir það hafa verið súrrealískt að mæta í skólann eftir vatnslekann en það sé þó hugur í stúdentum. „Við erum í senn bjartsýn og erum búin að vera að takast á við svo margar áskoranir á þessu starfsári og skólaári þannig að þetta er bara ein af þeim áskorunum sem við munum vonandi komast í gegnum öll saman,“ segir hún.