Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Dramabundin reisn og falleg orka

Mynd með færslu
 Mynd: - - Karitas Harpa

Dramabundin reisn og falleg orka

22.01.2021 - 09:00

Höfundar

On the Verge er fyrsta sólóplata söngkonunnar og tónlistarmannsins Karitasar Hörpu. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Karitas Harpa hefur hingað til skotið út nokkrum smáskífum sem hafa fengið að óma á öldum ljósvakans. Nú er búið að binda þær saman, ásamt fleiri lögum, í þessa breiðskífu. Í flestum lögum vinnur hún ásamt upptökustjóranum Zöe Ruth Erwin að lokafrágangi.

Þó að upphafslagið kallist Running er um hæglætisstemmu að ræða, lag sem setur vissan tón fyrir alla plötuna. Heildarsvipurinn er ballöðukenndur, róleg popplög sem svona læðast að þér eftir drjúgan tíma. Það blasir ekkert við hér. The Running er til dæmis opnað með fallegu píanóstefi og laginu er leyft að byggjast upp, smátt og smátt. Karitas herðir svo á í viðlaginu, sleppir röddinni frjálsri og setur ástríðu í framvinduna. Hófstillt upphaf sem er svo undirstrikað í næsta lagi, Come to this. Karitas til baka, svöl og íhugul. The Small King er með ævintýrablæ eins og nafnið gefur til kynna, textinn eins og honum væri lyft úr H.C. Andersen ævintýri. Karitas setur viðeigandi áferð á lagið og hún syngur plötuna afskaplega vel. Er raddsterk, tónviss, býr yfir fegurð og er dálítið kamelljón líka. Veit hvenær hún á að vera leikræn, hvöss, mjúk og svo framvegis.

Platan siglir áfram í rólegheitagírnum. Lag Tinu Turner, The Best er dregið í gegnum þessa síu, sniðug hugmynd en mér hugnast það engu að síður lítt. Life is Cold er kaldranalegra en það sem á undan kom og í Break Me er sett í fjórða gír, herákall og yfirlýsing um að einhver muni ekki ná að brjóta þann er syngur niður. Svavar Knútur syngur I love you með Karitas en svo er lokað með laginu Sæla, hvar textinn er íslenskur. Höfug og stillt ballaða og í góðum takti við upphaf plötunnar.

Þessi lágstemmda ára virkar vel, þegar allt er saman tekið. Værðin undirstingur boðskapinn, Karitas er ekki að hrópa á torgum eða keyra lögin upp, hún leyfir þeim að bora sig inn í þig, hægt og bítandi. Sjálfar lagasmíðarnar eru hins vegar missterkar, vissulega, sem ég skrifa einfaldlega á hversu langt listakonan er komin á þessu ferðalagi.  Rennslið á plötunni er líka dálítið sundurlaust, sem er oft raunin þegar smáskífum er safnað saman. En eins og ég segi, heildartónninn virkar og þetta er vel efnilegt. 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Karitas Harpa - On the Verge