Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Áhrifamesta stjórnmálastefna okkar tíma er popúlismi

Mynd: - / Pixabay

Áhrifamesta stjórnmálastefna okkar tíma er popúlismi

22.01.2021 - 20:00

Höfundar

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur spáir í strauma, stefnur og hneigðir á hinum ýmsu sviðum mannlífsins. Hér fjallar hún um popúlisma, og spyr meðal annars hvaðan hann kom og hvernig fer hann með lýðræðið og þjóðfélögin.

Kristrún Heimisdóttir skrifar:

Í sumar sem leið fékk ég bréf frá bandarískum lagaprófessor sem innihélt stutt og skýr skilaboð til mín. Hann óskaði mér innilega til hamingju með að búa á Íslandi sem hann dáðist að sem vel reknu fjölhæfu þjóðfélagi sem virti manngildi og skipaði því hæst ofar peningum, þar sem stjórnmálafólk notaði skynsemi og vildi vel og baráttan við COVID-19 byggðist á sterkum vísindalegum grunni.

Ég var auðvitað nógu vel læs á undirtextann í þessum hamingjuóskum til að sjá greinilega að hann var óánægja með eigin stjórnvöld og stöðu Bandaríkjanna í covid-baráttunni; þetta var ekki síður skens um eigið land en hrós um mitt;  en ég rifja þetta upp hér og nú vegna þess að ég svo oft hugsað þetta sama í kófinu og þakkað fyrir að vera Íslendingur og búa hér. 

Það er ekki mjög langt síðan Íslandi var fundið allt til foráttu eftir að bankakerfið hrundi og allt var í voða. Kona að nafni Ann Sibert sagði þá um Ísland að það væri alltof lítið til að vera sjálfstætt ríki. Það væri svo lítið að ekki væri hægt að stjórna því vel og það skapaði hættu fyrir önnur ríki. Ann Sibert er hagfræðingur, smithættan af íslenska hruninu var viðfangsefni hennar fræða. Við skulum átta okkur á því að Ísland var sett í einangrun þarna um árið og næstum enginn vildi við okkur kannast nema Færeyingar, þeir góðu grannar.

Þessi einangrun og smánun Íslands hafði gífurleg áhrif á almenning held ég, og mjög mjög margir trúðu Ann Siebert af því að hún var útlendingur og hámenntuð. Hrifningin hér heima á henni varð svo mikil að hún tók sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og sat þar um einhvern tíma. Hrunið er séríslenskt heiti og hefur sérgreindari merkingu en orðin sem notuð eru annars staðar í heiminum um fjármálakreppuna. Líka í löndum sem fóru verr út úr henni en við. Hrunið vísar til sálarástands þjóðarinnar sem missti sjálfsvirðinguna sem Íslendingar og krafðist þess að endurheimta hana.

Smánun er eyðandi afl, úrdráttur og niðurrif í umtali, dregur niður alla sem heyra og líka þann sem talar. Smánun hefur gríðarleg áhrif og hún er orðin að næsta hversdagslegri ömurð sem ber fyrir augu á samfélagsmiðlum daglega. Í Dægurmálaútvarpinu á Rás 2 var á sínum tíma Þjóðarsálin. Hörkuþáttur þar sem margir hringdu inn og sögðu hug sinn hreinan. En einu sinni í viku var Meinhornið. Sérstakur tími til að skammast og kvarta og kveina. Fyrirtaks útrás og formið til marks um að öllu skal afmörkuð stund. Í þann rúma áratug sem liðin var frá hruni hafði Meinhornið breitt úr sér yfir alla umræðu allra umræðuþátta og allra fjölmiðla. Skammir og smánun, kvartanir og illmælgi, sjálfsvorkun og umkenningar. Alveg sérstök illmælgi blossaði upp í öllum krókum og kimum. Ísland væri ónýtt. Allt ömurlegt.

Baráttan við COVID-19 hefur hins vegar dregið fram marga góða og mjög mikilvæga þætti í okkar samfélagsgerð hér á Íslandi, okkar stjórnmálalífi og vísindastarfi. Heiður þeim sem heiður ber fyrir það. Og góðir hálsar, þegar upp verður staðið þá eru það kannski bara næstum allir sem hér búa! Heiðurinn verður sameign þjóðarinnar.

Prófessorinn sem skrifaði mér aðdáandabréfið um Ísland er enginn bjáni sem ekkert veit, hann hefur komið til Íslands og viðfangsefni hans í fræðunum er m.a. ríkisvaldið og ábyrgð þess og hlutverk á sviði velferðar og heilbrigðisþjónustu. Hann þekktur m.a. fyrir vináttu sína við Barack Obama en þeir kenndu saman lögfræðinámskeið í fyrra lífi forsetans. En amerískt nafnasnobb er aukatriði hér. Ég finn að mjög margir Íslendingar hefðu hvergi annars staðar viljað vera í kófinu en hér.

Minn staður er hér þar sem Evrópa endar, orti Hannes Pétursson og það eru orð sem snerta alltaf streng í mér. Núna, sérstaklega, á þessu nýja ári. Við þessar aðstæður. Ég vil hvetja ykkur til að taka núna eftir öllu því sem vel er gert og leyfa þeim sem það gera að njóta sannmælis. Það er vanmetið hversu miklu betri samfélög verða þegar sannmæli er í hávegum haft. Staða sannmælis í lögum og fjölmiðlum hefur veiklast síðustu áratugi og það þarf að að endurvekja ábyrgð fólks á orðum sínum eins og á gjörðum sínum. Illyrðin hafa aldrei fyrr streymt um samfélögin eins jökulfljót í leysingum. Þetta er eins og iðnvæðing illmælginnar, hún er eins og söluvara mögnuð upp, fjölfölduð og breidd út. Svona lagað skaðar samfélagsgerðina.

Áhrifamesta stjórnmálastefna okkar tíma er svokallaður popúlismi. Það er ótrúlegt að segja þetta en það er satt. Popúlismi er áhrifamesta stjórnmálastefna okkar tíma. Popúlismi hefur farið um allt. Sannkölluð vofa á æsiflugi um heiminn. Á íslensku heitir það lýðskrum, og eins og alltaf gildir um okkar gegnsæja tungumál hjálpar það til að skilja fyrirbærið, því orðið lýðskrum er einmitt lýsandi fyrir innantómt stjórnmálatæki. Og það er það sem popúlismi er: innantómt tæki og allragagn sem er í sífelldri leit að ágreiningsmálum til að hagnýta þau sér sjálfum til frægðarauka og framdráttar.

Orðið er núna notað um alls konar hreyfingar og stjórnmálaflokka, áberandi einstaklinga og hinar og þessar bylgjur sem rísa, í menningarkimum eða í stafrænum heimi eða á götum úti. Persónur skapa eins konar költ um sjálfar sig sem leiðtoga í hinum sterka miðli sjónvarpi; það er teledemocracy sem mörg dæmi eru um frá Ítalíu til Rússlands, Kína, Bandaríkjanna og Venesúela.

Popúlismi er ekki heildstæð og jarðtengd samfélagssýn. Hinir nýju leiðtogar skrifa ekki bækur um ætlunarverk sína, það væri of skuldbindandi. Það eru ekki haldnar ráðstefnur þar sem rætt er um stefnumótun. Popúlismi getur komið úr öllum áttum. Frá hægri og frá vinstri, úr viðskiptum með eigin auð sem stökkpall eða úr listum með stjórnleysi sem gunnfána.  Að vera popúlisti er á sinn hátt að vera allragagn, og hver sem er getur klætt sig í þann búning, hvenær sem er og freistað gæfunnar eins og í hverju öðru veðmáli.

Einn mikið notaður lykill að velgengni á þessu sviði er að velja sér þann óvin sem nógu mörgum öðrum hugnast, jafnvel að vera óvinveittur og ógnandi til að það skili athygli og skapi stöðu. 2008 var að því leyti jafn afdrifaríkt ár og 1932 að fjármálakreppa af verstu gerð splundraði hófsömum stjórnmálum og klauf samfélögin í herðar niður. 1932 var ár Mið-Evrópukreppunnar sem bankastjórar af gyðingaættum voru sagðir hafa grætt á meðan almenningi blæddi út. Meint stjórn gyðinga á fjármálagjörningum heimsins og sögur um bakstungur voru eldsneyti nasismans í Þýskalandi. Hnattræna fjármálakreppan fyrir 12 árum hefur klofið stjórnmálin á sambærilegan hátt og þessar gömlu hugmyndastefnur risu upp úr gröfum sínum, vonandi til þess að hníga niður aftur niður í þær án þess að gera stórfelldan óskunda í heiminum.

En við erum í vandræðum með að tala um þetta. Vissulega hafa nýnasistar skotið upp kollinum í Þýskalandi að einhverju leyti og fasisti er orðið að orði sem nú er aftur notað og jafnvel víða, og um marga, en hvorugt skýrir þetta nógu vel við hvað við er að glíma nú. Það skiptir máli að taka dæmi og skoða vel sameiginleg einkenni þeirra stjórnmálaaðferða sem popúlistar nútímans eiga að einhverju leyti sammerkt að þeir nota. Þar skiptir kannski mestu máli að þessi nútímapopúlismi hafnar því að lýðræði sé byggt á lögum. Hann krefst þess okkur sé stjórnað af mönnum en ekki með lögum. Popúlistar hefja upp geðþóttann sem leiðarljós samfélagsins. Og þessu fylgir fyrirlitning, í raun og veru, á lögum og þeim málsmeðferðarreglum sem þau mæla fyrir um – og það skiptir ekki máli hvort það er í heimaríki eða á vettvangi þjóðaréttarins. Um þetta eru mörg mörg dæmi.

Ég nefni að Fidesz, flokki Victors Orban í Ungverjalandi, nægði 2/3 meirihluti á þingi til að gjörbreyta stjórnarskrá landsins sér í vil svo nú er hægt að tala um eins flokks kerfi í landinu. Og hefur í raun yfirtekið að auki stjórnlagadómstól landsins og tekið þau völd í eigin hendur. Nú er fjögur ríki í Miðaustur-Evrópu talin mynda eins konar bandalag um svona stjórnarhætti, Pólland, Slóvakía og Tékkland auk Ungverjalands.

Annað atriði er hugmynd popúlistanna um fullveldi fólksins. Það felst í því að þeir fyrir tali hönd fólksins en engir aðrir í stjórnmálum geri  það. Allir aðrir í stjórnmálum en þeir eru uppnefndir elíta sem ekki sé treystandi. Þetta er að mörgu leyti skæðasti þáttur þessa nútímapopúlisma, að grafa undan öllum hefðbundnum stjórnmálum, að gera alla stjórnmálaumræðu að persónuárásum á andstæðinga. Að virða andstæðinginn ekki viðlits, sýna ekkert traust.

Í þriðja lagi er algjör afneitun og höfnun fulltrúalýðræðis. Í stað þess að líta svo á að framlag þeirra til stjórnmála sé að segja hvernig þeir vilji taka þátt í að stjórna ríkinu, að halda uppi velferðarþjónustunni og heilbrigðisþjónustunni, þá leika þeir engla á götum sem komi í stað opinberu þjónustunnar með betri þjónustu, styðja t.d. aldraðar konur með því að fara út í búð fyrir þær og fá þær þannig til að styðja sig í stjórnmálum og skrá þær í flokkana en þá er líka þjónustu þeirra lokið. Frægt dæmi er frá grískum fasískum flokki.

Baráttan við COVI19 gengi aldrei án virðingar fyrir lögum og vandaðrar beitingar sóttvarnarúrræða, sannmælis um staðreyndir og vandaðrar upplýsingagjafar í hvívetna, og frjálsrar umræðu og á köflum reiðiblandinni. Sóttvarnir eru mikilvægustu stjórnmál síðasta árs og þessa árs. Þess vegna eiga þau að breyta stjórnmálunum almennt.

Hér á Íslandi hefur popúlisminn verið lúmskari en víða annars staðar en mikilvirkur í yfirtöku þjóðfélagsumræðunnar. Sífelldur áburður á að heita má alla kjörna íslenska fulltrúa um mannvonsku, spillingu, illgirni, vanhæfni o.s.frv. er aðaltæki popúlistanna hvar sem er, það að gera kjörna fulltrúa að óvinum fólksins. Í ýmsum löndum hefur þeim þannig tekist að gera vísindamennina að óvinum fólksins. Þannig er það ekki á Íslandi og við eigum að losa okkur við lymskulegan popúlistaáróður um ónýt íslensk stjórnmál og virða í þess stað sannmæli um málið.

Popúlisminn nærist á ýmsu, þar á meðal pólitískum rétttrúnaði. Sjálfsmyndarstjórnmál þar sem fólk lokar sig inni í bergmálsherbergjum er líka dauði stjórnmálanna. Það er hrikaleg staðreynd að barnungir milljarðamæringar, forstjórar samfélagsmiðlafyrirtækja, kveiki og slökkvi á valdamesta manni heims, þeim sem er handhafi kjarnorkutakkans.

Lýðræði með lögum er það sem við búum við á Íslandi, það sem við getum verið þakklát fyrir að búa við og það sem við skulum verja. Andstæðurnar eru miklar í þeim fréttum sem við búum við  þessa dagana, farsóttin geisar skæðari en nokkru sinni víða um lönd en bóluefnin eru líka byrjuð að uppfyllla sitt hlutverk. Tilveran reynir að finna jafnvægi milli vonar og ótta en ástandið er skrítið og uppnámið skammt undan. Við erum bara menn en ekki guðir, gerum okkar besta en stjórnum ekki heiminum í kringum okkur, vitum það og veljum að leggja gott af mörkum.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Tókst Bandaríkjamönnum að kæfa valdarán í fæðingu?