Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja dreifa ösku ástvina á vinsælum ferðamannastöðum

21.01.2021 - 23:26
Mynd með færslu
 Mynd: Getty Images - RÚV
Sýslumanninum á Norðurlandi eystra berast árlega um 40 til 60 umsóknir á ári þar sem óskað er eftir leyfi til að dreifa ösku utan kirkjugarða. Helmingur þeirra kemur erlendis frá þar sem aðstandendur hinna látnu koma með jarðneskar leifar viðkomandi til landsins. Í langflestum tilvikum hafa umsækjendur engin tengsl við Ísland en vilja dreifa öskunni á vinsælum ferðamannastöðum.

Þetta kemur fram í umsögn sýslumannsins á Norðurlandi eystra við frumvarp nokkurra þingmanna.

Þar er lagt til að fallið verði frá núverandi fyrirkomulagi og leyft verði að dreifa ösku án takmarkana eða sérstaks leyfis.  Málið var fyrst lagt fram á Alþingi fyrir tveimur árum en síðan endurflutt á yfirstandandi þingi. Flutningsmaður frumvarpsins er Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Sýslumaðurinn segir hægt að fallast á að í núgildandi lögum sé að finna töluverðar hömlur á því hvar megi dreifa ösku.  Þetta séu þó ekki meiri takmarkanir en í nágrannaríkjum. Þær séu yfirleitt hugsaðar til þess að koma í veg fyrir ósæmilega meðferð á jarðneskum leifum.

Á bilinu 40 til 60 umsóknir berist árlega um leyfi til að dreifa ösku utan kirkjugarða. Helmingur þeirra komi erlendis frá þar sem aðstandendur hinna látnu koma með jarðneskar leifar til landsins. 

Embættið bendir á að þeir erlendu ferðamenn sem vilja fá að dreifa ösku vilji oft gera það við vinsæla ferðamannastaði; til dæmis yfir Gullfossi, undir Seljalandsfossi, yfir hverasvæðið í Haukadal eða við stuðlabergið í Reynisfjöru.  Þetta gæti valdið öðrum viðstöddum nokkrum óþægindum „í margþættum skilningi þess orðs,“ eins og það er orðað í umsögninni.

Þá segir sýslumaðurinn að reglur um líkbrennslu séu strangar hér á landi.  Lík megi aðeins brenna við 850 gráður til að tryggja að eingöngu aska verði eftir og engar aðrar jarðneskar leifar. „Þar sem töluverður fjöldi þeirra sem vilja dreifa ösku hér á landi kemur erlendis frá er alls ekki hægt að tryggja að eftir þessu hafi verið farið við líkbrennslu,“ segir sýslumaðurinn. Því geti þetta verið jarðneskar leifar sem innihaldi ekki aðeins ösku.

Embættið vill því ekki gefa dreifingu ösku frjálsa að öllu leiti en ástæða sé til að endurskoða, skýra betur og einfalda þær reglur sem nú eru í gildi.

Kirkjugarðaráð segir í umsögn sinni við frumvarpið að ekki hafi borist neinar kvartanir vegna núverandi fyrirkomulags. Því sé ekki brýn nauðsyn til að rýmka heimildir.

Kirkjugarðasambandið segir í sinni umsögn að þessar breytingar séu varhugaverðar og geti falið í sér ófyrirséðar og óæskilegar afleiðingar.  Frumvarpið sé dæmi um öfuga forgangsröðun Alþingis því aðeins ein bálstofa sé á Íslandi, búnaður hennar gamall og þarfnist endurnýjunar. Það kalli á mikla fjárfestingu.

Fram kemur í umsögninni að kostnaður við slíka fjárfestingu geti numið rúmlega milljarði króna. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV