Hollenska þingið samþykkti í dag útgöngubann um nætur sem tekur gildi á laugardag, vegna útbreiðslu veirunnar. Þetta er fyrsta útgöngubannið í landinu síðan í síðari heimsstyrjöld.
Áhyggjur af útbreiðslu á stofni veirunnar sem hefur dreift sér víða á Bretlandi, eru ástæða þess að gripið er til útöngubannsins, sem gildir frá klukkan níu á kvöldin til hálf fimm á morgnana. Bannið verður í gildi til 19. febrúar og sektin fyrir brjóta gegn því jafngildir um fimmtán þúsund íslenskum krónum.
Nú eru í gildi í Holllandi ströngustu takmarkanir síðan faraldurinn hófst og hafa veitingastaðir og barir verið lokaðir síðan í október, og skólar og verslanir sem ekki selja nauðsynjar, síðan í desember. Þá hefur verið sett bann á allt flug frá Bretlandi, Suður-Afríku og Suður-Ameríku til Hollands. Afbrigði veirunnar, sem talin eru smitast mun hraðar en önnur, hafa mestmegnis verið greind í Bretlandi, Suður-Afríku og í Brasilíu.