Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Spánverjar höfðu betur í sveiflukenndum leik

Mynd: EPA-EFE / EPA POOL

Spánverjar höfðu betur í sveiflukenndum leik

21.01.2021 - 19:05
Alfreð Gíslason og hans menn í þýska landsliðinu í handknattleik fengu erfitt verkefni í hendurnar þegar lið þeir mættu Evrópumeisturum Spánverja í kvöld. Mótið er komið í milliriðla og þangað tóku Þjóðverjar með sér tvö stig en Spánn þrjú. Eftir vægast sagt miklar sveiflur í leiknum hafði Spánn betur og kom sér í góða stöðu í milliriðlinum.

Leik kvöldsins var beðið með mikilli eftirvæntingu, Þjóðverjar voru staðráðnir að bæta upp fyrir tapið gegn Ungverjum í síðasta leik riðlakeppninnar og Spánverjar þrátt fyrir að vera taplausir höfðu hikstað nokkrum sinnum á mótinu.

Byrjunin á leiknum sveik engan, liðin skiptust á að skora allt þar til í stöðunni 4-4 þegar Spánverjar náðu fyrsta alvöru áhlaupi leiksins, 6-4 var staðan um miðbik fyrri hálfleiks Spánverjum í vil. Evrópumeistararnir héldu forystunni allt til loka seinni hálfleiks og leiddu í hálfleikshléinu með þremur mörkum 16-13. 

Svo virðist sem hálfleiksræða Alfreðs Gíslason hafi skilað sínu því snemma í seinni hálfleik náðu Þjóðverjar að jafna metin, þeir bættu svo um betur og komust yfir 25-22 þegar einungis fimmtán mínútur voru eftir. Þá má segja að spænska liðið hafi vaknað, það gekk allt upp hjá þeim. Gonzalo Vargas kom inn á í mark Spánverja og varði hvern boltann á fætur öðrum, Þjóðverjar gerðu mikið af mistökum sóknarlega og það nýttu Spánverjar sér með mörkum úr skyndisóknum. Á 12. mínútna kafla náðu Spánverjar 9-1 syrpu. Þar með var grunnurinn að góðum sigri lagður en leiknum lauk með fjögurra marka mun Spánverjum í vil 32-28.