Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ríku löndin fremst í bólusetningarröðinni

Mynd: RÚV / RÚV
„Það kom öllum á óvart hversu stór og mikill Covid-19 faraldurinn varð" segir Geir Gunnlaugsson prófessor í hnattrænni heilsu við Háskóla Íslands og fyrrverandi landlæknir. Nú standi heimsbyggðin öll, og sérstaklega ríkari lönd, frammi fyrir siðfræðilegum spurningum um forgangsröðun í bólusetningu.

Ár liðið frá því að lýst var yfir neyðarástandi

Senn verður eitt ár liðið frá því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna kórónuveirunnar.  „Við eru í dag með yfir 90 milljónir tilvika" segir Geir í samtali við Spegilinn. „Öll lönd í heiminum eru að kljást við þetta og ég held að enginn hefði getað ímyndað sér hvernig þessi faraldur hafði síðan áhrif á okkar daglega líf".

Alþjóðlega samvinnan COVAX gengið vel

Geir segir að þetta sé sannarlega heimsfaraldur. „Við höfum búist við heimsfaraldri, aðallega inflúensu. Samtímis því sem við höfðum reiknað með því að að það kæmi faraldur, þá er raunveruleikinn kannski annar en við gátum séð fyrir". 

Geir ræðir síðan um hið svokallaða alþjóðlega COVAX samkomulag frá síðasta vori þar sem fjölmörg ríki, stofnanir og fyrirtæki skuldbundu sig til að vinna saman að því fást við faraldurinn, ekki hvað síst að vinna að rannsóknum á bóluefni og að tryggja, þegar þar að kæmi, að dreifing yrði jöfn og að öll heimsbyggðin nyti góðs af.  „Það hefur tekist í sjálfu sér" segir Geir. „Gert hefur verið samkomulag og reiknað er með að tveir milljarðar skammta verið til taks fyrir lok þess árs. Ætlunin er að dreifa þessu jafnt til allra landa".

Siðfræðilegur vandi 

„En samtímis er augljóst að ríku löndin hafa verið að gera samninga til hliðar við þetta átak og hafa veðjað á ákveðin bóluefni sem þau vilja taka til sín. Þau gerðu fyrir fram samninga og eru þannig fyrr í röðinni".  Geir segir að þarna sé á ferð siðfræðilegur vandi. „Spurningin er: Kemur okkur við hvað er að gerast í fátækum löndum? Þurfa þau minna á þessu að halda en við?

Svarið er að mínu mati - nei. Við þurfum alþjóðlega samstöðu af því ef að þessi faraldur geisar einhvers staðar þá mun hann alltaf valda ógn hjá okkur". 

Viðtalið við Geir má heyra í spilaranum hér að ofan.