Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Mikil hætta“ af þremur nýjum afbrigðum kórónuveirunnar

epa08956001 A KLM flight attendant at Schiphol Airport, the Netherlands, 21 January 2021. Another 800 to 1000 jobs will be lost at KLM as a result of the coronavirus pandemic crisis. Earlier, 5,000 jobs had been lost at the airline.  EPA-EFE/EVERT ELZINGA
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Sóttvarnastofnun Evrópu hefur uppfært áhættumat sitt vegna þriggja nýrra afbrigða kórónuveirunnar sem kennd eru við Bretland, Suður-Afríku og Brasilíu. Stofnunin telur mikla hættu stafa af þessum nýjum afbrigðum þar sem flest bendi til þess að þau séu meira smitand en önnur afbrigði.

Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar.  Hún mælist til þess að Evrópulönd geri sig reiðubúin til að herða enn frekar takmarkanir og setji meiri kraft í bólusetningu. 

Stofnunin bendir á að besta leiðin til að hemja þessi afbrigði séu tveggja metra reglan, sóttkví, raðgreining sýna og smitrakning. Þá er mælst til þess að Evrópubúar ferðist ekki að nauðsynjalausu milli landa. Allir sem koma til Íslands þurfa að fara í tvær sýnatökur með 5 til 6 daga sóttkví á milli. Þá eru öll sýni raðgreind hér á landi en í öðrum löndum er það hlutfall mun lægra.

Sóttvarnalæknir hefur sagt að yfirvofandi hætta sé á því að breska afbrigði nái hér fótfestu.

Sóttvarnastofnun Evrópu telur að Evrópulönd þurfi að undirbúa heilbrigðiskerfið fyrir enn meira álag vegna þessara afbrigða. Þau séu meira smitandi og því sé hætta á að smit berist til viðkvæmra hópa.  Ekki megi slaka á takmörkunum því enn sé langt þar til sá hópur, sem er talinn bera smit hvað mest, verður bólusettur.

Fram kemur á vef Guardian að Evrópusambandið velti nú upp þeim möguleika hvort herða þurfi enn frekar aðgerðir á landamærunum og jafnvel takmarka ferðalög.  Starfsmannastjóri Angelu Merkel sagði í sjónvarpsviðtali í gær að mögulega þyrfti landið að loka landamærum sínum ef ekki gengi betur að ráða við farsóttina.

Viðvörun sóttvarnastofnunarinnar bætist ofan á óánægju margra Evrópulanda með afhendingu bóluefnaskammta frá Pfizer.  Misvísandi fréttir hafa birst síðustu daga um hvort fyrirtækið þurfi tímabundið að draga úr afhendingu á meðan framleiðslan er uppfærð eða ekki. Guardian greinir frá því að Rúmenía og Pólland hafi aðeins fengið helming af þeim skömmtum sem þeim hafi verið lofað. Ítalía hefur hótað Pfizer lögsókn standi fyrirtækið ekki við gerða samninga.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir í viðtali við DR að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eigi að beita lyfjafyrirtækið öllum sínum þrýstingi til að það standi við gefin loforð og afhendi þá skammta sem heitið var. „Þetta er spurning upp á líf eða dauða. Það er raunveruleg hætta á að við missum stjórn á farsóttinni í Evrópu.“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundinum í morgun að Ísland fengi færri skammta frá Pfizer en reiknað hafði verið með. Fyrirtækið myndi þó vinna upp þennan skort strax í mars.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV