Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

KR vann nauman sigur á nýliðum Hattar

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

KR vann nauman sigur á nýliðum Hattar

21.01.2021 - 21:20
KR og Höttur mættust í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld en leikurinn var í járnum allt fram á lokamínútuna. Nýliðar Hattar voru tíu stigum yfir í leikhléi í Vesturbænum í kvöld en KR-ingar sneru leiknum við í seinni hálfleik og unnu með fimm stiga mun, 113-108.

Eftir töp í fyrstu tveimur umferðunum unnu sjöfaldir Íslandsmeistarar KR sinn annan leik í röð og komust upp í 6. sæti deildarinnar. Höttur hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum til þessa. 

Bandaríkjamaðurinn Ty Sabin hélt uppteknum hætti og var stigahæstur í liði KR með 29 stig en Króatinn Dino Stipcic, fyrrverandi leikmaður KR, var frábær í liði Hattar með 17 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. 

ÍR og Grindavík með sigra

ÍR tók á móti Þór Akureyri í Breiðholti í kvöld og eftir jafnan fyrri hálfleik vann ÍR öruggan 15 stiga sigur, 105-90. ÍR-ingar hafa unnið þrjá leiki og sitja í 4. sæti deildarinnar. Everage Richardson, sem lék með Hamri í 1. deildinni á síðustu leiktíð, var stigahæstur í liði ÍR með 28 stig.

Grindavík er svo á toppi deildarinnar en liðið vann sinn fjórða leik í röð þegar Haukar mættu í heimsókn í Röstina í kvöld. Grindavík vann með sjö stiga mun, 82-75, en Kristinn Pálsson og Eistinn Joonas Järveläinen voru stigahæstir Grindvíkinga með 20 stig hvor.

Í lokaleik kvöldsins gerðu Valsmenn góða ferð á Sauðárkrók og unnu sex stiga sigur á Tindastóli, 77-71.