Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kári kennir ungu strákunum íslensku á HM í handbolta

Mynd: RÚV / RÚV

Kári kennir ungu strákunum íslensku á HM í handbolta

21.01.2021 - 07:00
Kári Kristján Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, hefur verið utan hóps á HM í Egyptalandi hingað til. Hann hefur þó ekki setið aðgerðalaus en hann hefur til að mynda nýtt tímann í að kenna ungu strákunum í liðinu íslensku og strítt fyrirliðanum.

Hvernig er að vera í stúkunni á stórmóti?
„Þetta er bara mjög erfitt, maður þarf að vera fullur af auðmýkt og ég held að ég sé að reyna að nálgast það þannig,“ segir Kári.

Nú ert þú með eldri mönnum í liðinu, hvaða hlutverk ertu búinn að taka að þér gagnvart yngri strákunum í liðinu?
„Svona heilt yfir eru það bara félagsleg samskipti. Koma mönnum úr herberginu. Læra að tala saman og íslenskukennsla hefur farið fram hjá mér. Þeir hafa ekki góð tök á málinu sem slíku. Þannig að þetta er svona það helsta sem ég hef tekið að mér,“ segir Kári Kristján.

Kristján Kári hefur verið með Arnóri Þór Gunnarssyni, fyrirliða íslenska liðsins, í herbergi fyrstu dagana og hefur látið fyrirliðann aðeins finna fyrir samverunni. „Ég þurfti bara að taka það á mig að vera með honum í herbergi og þú skellir þér bara á kristjans46 á Instagram þá geturu fylgst með.“ Arnór lét hins vegar koma krók á móti bragði og Kári er nú einn í herbergi.

Binduru vonir við að koma inn í hópinn á mótinu?
„Andskotinn hafi það ef ég skelli mér ekki í einn leik,“ segir Kári.

Innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.