Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Hefðum ekki getað ímyndað okkur þessa stöðu“

21.01.2021 - 15:11
Ísafjörður, Kampi ehf, Rækjuvinnsla, Rúv myndir, Útgerð
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Það kom flatt upp á vinnslustjóra rækjuverksmiðjunnar Kampa og stjórnarformann þegar í ljós kom að fjárhagsstaða hennar var mun verri en komið hafði fram í ársreikningum og bókhaldi fyrirtækisins. „Við hefðum eiginlega ekki getað ímyndað okkur þessa stöðu,“ segir Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður.

Vefur BB greindi frá því í morgun að rækjuverksmiðjan hefði fengið greiðslustöðvun til næstu þriggja vikna. Tímann á að nota til að vinna að lausn á fjárhagsvanda fyrirtækisins og ef kröfuhafar fallast á áætlanir eigendanna verður sótt um lengri greiðslustöðvun.

Jón segir þetta háar fjárhæðir og hann hafi ekki verið bjartsýnn til að byrja með þegar í ljós kom að fjárhagsstaða verksmiðjunnar væri allt önnur en þeir hefðu reiknað með. Gjaldþrot blasti raunar við.  

Jón vill ekki fara nákvæmlega út í hvað gerðist.  Á visir.is kemur fram að á aðalfundi stjórnar í ágúst hafi komið fram að staðan væri mjög góð. Önnur staða blasti við um miðjan desember. „Við hefðum eiginlega ekki getað ímyndað okkur þessa stöðu. En þegar okkur var að fallast hendur þá var það velvilji fólksins í kringum okkur, starfsmenn og viðskiptavinir, sem hvöttu okkur áfram,“ segir Jón. Fram kemur á visir.is að fjármálastjóra Kampa hafi verið sagt upp störfum í desember.

42 starfsmenn vinna hjá rækjuverksmiðjunni og því er mikið í húfi.  Jón segir að þeir ætli að gera þetta rétt undir leiðsögn lögfræðings þannig að engum verði mismunað.  „Ég er búin að fresta ferðinni til Kanarí og hef lofað vinum og vandamönnum að klára þetta. Þeir sem þekkkja mig vita að ég ætla að gera það. Ég hleyp ekki frá þessu úr því sem komið er.“

Fram kom í Fiskifréttum á síðasta ári að Kampi væri stærsta og fullkomnasta rækjuvinnsla landsins. 95 prósent af framleiðslunni fer til Bretlands þar sem megnið endar í rækjusamlokum enda eru þær býsna vinsæll skyndibiti þar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV