Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fleiri fallið í farsóttinni en seinni heimsstyrjöldinni

21.01.2021 - 01:17
epa08877964 A patient is brought into the emergency room at Mount Sinai hospital in New York, New York, USA, 11 December 2020. The city is experiencing high hospitalization rates and high rates of Covid-19 positivity which lead New York Governor Andrew Cuomo to announce today that the city needs suspend indoor dining on Monday 14 December.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: epa
COVID-19 hefur nú kostað fleiri Bandaríkjamenn lífið en heimstyrjöldin síðari, samkvæmt gögnum Johns Hopkins háskólans í Maryland. Samkvæmt opinberum gögnum féllu 405.399 Bandaríkjamenn í heimstyrjöldinni, ýmist í stríðsátökum eða af öðrum orsökum sem rekja má til ófriðarins. Á miðvikudagskvöld fór fjöldi dauðsfalla sem rekja má til COVID-19 í Bandaríkjunum í 405.400.

Hvergi hafa fleiri veikst og dáið af COVID-19 en í Bandaríkjunum, þar sem um fjórðungur allra staðfestra smita í heiminum hafa greinst og um fimmtungur allra COVID-tengdra dauðsfalla.

Versti hjallinn mögulega framundan

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, minntist þeirra sem fallið hafa í farsóttinni á sérstakri minningarathöfn á þriðjudagskvöld. Í innsetningarræðu sinni sagði hann bandarísku þjóðina þurfa á öllum sínum styrk að halda til að komast í gegnum þennan dimma vetur, því mögulega væri erfiðasti og versti hjallinn framundan.

Forsetinn hafði áður lýst því yfir að allar aðgerðir ríkisstjórnar hans í baráttunni við faraldurinn verði í einu og öllu byggðar á vísindalegum grunni, öfugt við það sem tíðkaðist hjá forvera hans í Hvíta húsinu.

Á fyrsta degi sínum í embætti undirritaði hann forsetatilskipun um grímuskyldu í opinberum byggingum og almenningssamgöngum milli ríkja, og aðra um að Bandaríkin gangi aftur til liðs við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina. Þá bíður frumvarp hans um COVID-björgunarpakka upp á 1,9 billjónir Bandaríkjadala afgreiðslu þingsins.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV