Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Davíð Snorri stýrir U-21 landsliðinu í fótbolta á EM

Mynd með færslu
 Mynd: KSÍ

Davíð Snorri stýrir U-21 landsliðinu í fótbolta á EM

21.01.2021 - 21:05
Davíð Snorri Jónasson hefur verið ráðinn þjálfari undir 21 árs landsliðs karla í fótbolta en liðið leikur í lokakeppni EM í Ungverjalandi og Slóveníu í lok mars.

Knattspyrnusamband Íslands staðfesti ráðninguna í dag en Davíð Snorri, sem áður stýrði U-17 ára landsliði karla, hafði verið orðaður við starfið í nokkrar vikur. 

Hann tekur við starfinu af Arnari Þór Viðarssyni sem var ráðinn landsliðsþjálfari karla í síðasta mánuði. Saman stýrðu þeir A-landsliðinu gegn Belgíu í Þjóðadeildinni á síðasta ári þegar Erik Hamrén og Freyr Alexandersson voru í sóttkví.

Íslenska liðið verður með Rússlandi, Frakklandi og Danmörku í C-riðli. Riðlakeppnin klárast á einni viku í lok mars en ef Ísland endar í einu af tveimur efstu sætunum tekur við útsláttarkeppni sem hefst í lok maí.

Þá tilkynnti KSÍ einnig í dag að Ólafur Ingi Skúlason, fyrrverandi landsliðsmaður, hefði verið ráðinn þjálfari U-17 ára liðs drengja og U-15 ára liðs stúlkna.