Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bannað að leigja út bústaði í Þingvallaþjóðgarði

21.01.2021 - 06:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eigendum sumarhúsa í landi Þingvallaþjóðgarðs er óheimilt að leigja þá út í gegnum leigumiðlanir á borð við Airbnb, samkvæmt nýjum lóðaleigusamningi Þingvallanefndar, sem gildir næstu tíu árin. Fréttablaðið greinir frá.

Í frétt blaðsins segir að um 70 bústaðir séu innan þjóðgarðsins og að síðasti samningur við eigendur þeirra hafi verið gerður fyrir tíu árum. Nefndin samþykkti svo á fundi í desember að taka fyrir þennan möguleika í nýjum samningi, sem gildir næstu tíu árin.

Haft er eftir Einari Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsverði að markmið breytinganna sé að skýra  ákvæði í eldri samningnum um bann við atvinnurekstri. Einhverjir sumarhúsaeigendur hafi talið að það tæki ekki til útleigu bústaða og því hafi þótt ástæða til að taka af allan vafa um þetta. Þá verður lausaganga hunda einnig bönnuð í þjóðgarðinum næstu tíu árin, samkvæmt frétt blaðsins.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV