Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Andleg líðan aldrei verri en í kórónuveirufaraldrinum

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Neysla landsmanna um síðustu jól var meiri en verið hefur frá upphafi mælinga. Minni veikindi voru meðal landsmanna bæði í haust og í lok síðasta árs, líklega vegna sóttvarna. Andleg líðan mældist hins vegar verri þegar fyrsta og þriðja bylgja faraldursins stóðu sem hæst.

Þetta kemur fram í Samfélagsmælikvarða Gallups, sem er könnun sem hefur verið gerð í rúman áratug og byggist á spurningum um lífskjör og líðan landsmanna. 

Andleg líðan helst í hendur við þróun faraldursins

Andleg líðan landsmanna hefur ekki mælst verri frá upphafi mælinga. Átján prósent þátttakenda sögðust hafa liðið illa í mars. Líðan fólks virðist haldast í hendur við þróun faraldursins hér á landi. Verst leið fólki í lok mars en þá var fyrsta bylgja faraldursins hér í hámarki, samkomutakmarkanir voru settar á um miðjan mars og fyrstu Íslendingarnir létust vegna farsóttarinnar í lok sama mánaðar. Mikil röskun var á starfi Landspítala en þó ekki jafn mikil og í þriðju bylgju þegar andleg líðan mældist svipað slæm og í fyrstu bylgju. Sautján prósent þátttakenda sögðust þá líða illa. Verst var líðan fólks um miðjan nóvember. Þá hafði þriðja bylgja staðið í tvo mánuði með tilheyrandi takmörkunum auk þess sem greindum smitum og dauðsföllum fór fjölgandi, meðal annars vegna hópsýkingarinnar á Landakoti.

Eyddu 10 þúsund krónum á dag um jólin

Samkvæmt Samfélagskvarðanum eyddu landsmenn að meðaltali rúmum tíu þúsund krónum á dag dagana fyrir og eftir jól; frá 21.-27. desember. Mesta eyðsla sem mælst hefur fram að þessu var líka í kringum jólin eða rúmlega 9.000 krónur á dag árið 2012 á núvirði.

Áhyggjur af peningum meiri í vor en nú

Í apríl, þegar kórónuveirufaraldurinn hafði staðið í rúman mánuð, höfðu fjórir af hverjum tíu áhyggjur af því að heildartekjur heimilisins myndi lækka á næsta hálfa árinu eða um 40%. Það hlutfall hafði ekki tekið jafn mikið stökk síðan í nóvember á hrunárinu 2008. Áhyggjur landsmanna dvínuðu hratt, nú í desember töldu 12% að tekjurnar myndu lækka á næstu mánuðum.

Færri veikir vegna sóttvarna 

Þá voru færri fjarverandi úr vinnu vegna veikinda á meðan faraldurinn stóð sem hæst hér á landi. Sérfræðingar Gallups telja það skýrast af sóttvörnum. Tíu prósent voru veik í mars miðað við 17-19% árið á undan. Svipaða sögu má segja um veikindi í haust í þriðju bylgju, þá voru 10% veik en 13-18% árið á undan.