
Áfram rýming og hættustig á Siglufirði
Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra segir að áfram sé spáð snjókomu og vindi næstu daga á Norðurlandi. Þá féll snjóflóð í Héðinsfirði í dag.
Því verður áfram í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi og hættustig á Siglufirði. Rýmingar sem gripið var til í gær á Siglufirði gilda áfram. Þeir íbúar sem rýmdu hús í gær fá að fara heim undir kvöld til þess að sækja hluti og huga að eigum sínum.
Í dag tókst að opna Siglufjarðarveg og veginn um Ólafsfjarðarmúla, en þar verður aftur lokað kl 20:00 í kvöld vegna hættu á snjóflóðum. Búast má við truflunum á samgöngum á meðan þetta ástand varir og er fólk hvatt til þess að fylgjast vel með tilkynningum Vegagerðarinnar.
Varðskipið Týr er inni á Eyjafirði og verður til taks á meðan hættuástand varir.