
109 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun
Þetta kemur fram á nýjum vef Lyfjastofnunar um aukaverkanir.
Bólusetning er hafin hjá 5.725 Íslendingum og hafa 480 fengið seinni sprautuna frá Pfizer. 1.259 hafa fengið bóluefnið frá Moderna en hinir bóluefni Pfizer.
Lyfjastofnun segir að fjölda tilkynninga verði að skoða í samhengi við fjölda þeirra sem hafa verið bólusettir. „Mikilvægt er að að hafa hugfast að fjöldi tilkynninga vegna gruns um aukaverkun segir ekki til um tíðni raunverulegra aukaverkana eftir bólusetningu eða öryggi bóluefna.“
Sjö andlát voru tilkynnt til Lyfjastofnunar eftir fyrstu bólusetninguna í desember. Samkvæmt rannsókn tveggja sérfræðinga á fjórum andlátum var talið að ekki væri um orsakatengsl að ræða. Í einu tilviki var ekki hægt að útiloka tengsl með vissu þótt líklega hefði andlátið verið af völdum undirliggjandi ástands.