Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stöngin bjargaði Noregi á ögurstundu

Mynd: EPA-EFE / AFP POOL

Stöngin bjargaði Noregi á ögurstundu

20.01.2021 - 21:35
Síðasti leikur dagsins á heimsmeistaramóti karla í handbolta var leikur í milliriðli okkar Íslendinga, þar mættust Portúgal og Noregur í mikilvægum leik. Eftir frábæran handboltaleik voru það Norðmenn sem unnu að lokum naumlega.

Norðmenn fóru með tvö stig í milliriðil og máttu ekki við því að tapa fleiri stigum ætluðu þeir sér í 8-liða úrslitin, að sama skapi var Portúgal með fullt hús stiga í milliriðlinum og átti góða möguleika að komast áfram upp úr milliriðlinum.

Leikurinn var hin mesta skemmtun allt frá upphafi til enda. Norðmenn byrjuðu leikinn betur en náðu aldrei að slíta Portúgalina frá sér af ráði, mest náðu Norðmenn þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik en þann mun voru Portúgalirnir fljótir að vinna til baka. Síðustu tvö mörk fyrri hálfleiksins komu frá Noregi og leiddi því Noregur 16-14 í hálfleik.

Í seinni hálfleik hélt hasarinn og skemmtunin áfram. Noregur þó alltaf með yfirhöndina, allt þar til að Portúgal komst yfir seint í leiknum þá fór um margan Norðmanninn og Portúgalirnir að spila frábæran handbolta oft á tíðum. Hinn 43 ára gamli Humberto Gomes kom inn á í mark Portúgals þegar Sander Sagosen kom sínum mönnum í 24-20. Þá tók við 7-2 kafli Portúgals sem komst yfir þegar átta mínútur voru eftir. 

Lokasekúndurnar í þessum leik verða svo lengi í minnum hafðar, þar byrjuðu Norðmenn á að tapa boltanum eftir leikleysu í síðustu sókn sinni í leiknum og Portúgal fékk tækifæri til að jafna leikinn og ná í mikilvæg stig, eftir tvö brot Norðmanna voru fimm sekúndur eftir þegar Rui Silva fyrirliði liðsins fékk boltann vel fyrir utan og þrumaði boltanum í stöngina og út og 29-28 sigur Norðmanna staðreynd.