Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lögregla rannsakar hugsanlegt brot á byggingarreglugerð

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með til skoðunar hvort HD verk, fyrrverandi eigandi Bræðraborgarstígs 1, hafi brotið gegn byggingarreglugerð. Þetta staðfestir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs, í samtali við fréttastofu. Þrennt lét lífið í bruna þar í sumar og hefur karlmaður á sjötugsaldri verið ákærður fyrir að kveikja í húsinu.

Hulda segir að málið hafi verið til skoðunar meðfram sakamálarannsókninni og að nú sé verið að skoða þennan þátt áfram.  Kjarninn greindi fyrst frá.  Lögreglan vildi í september ekki staðfesta hvort HD Verk væri til rannsóknar vegna ófullnægjandi brunavarna.

Í skýrslu Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar, HMS, um brunann kom fram að brunavarnir hússins hefðu verið í ólestri og ekki í samræmi við lög.  Herbergjaskipan hafi verið önnur en forsendur um brunaöryggi miðuðu við. „Eigandi hússins á hverjum tíma bar ábyrgð á ástandi hússins, var skylt að sækja um tilskilin leyfi vegna breytinga á húsnæðinu og eins bar honum að tryggja viðunandi brunavarnir,“ segir meðal annars í skýrslunni.  Breytt notkun hafi kallað á auknar brunavarnir og eldvarnareftirlit.

Þá kemur fram í skýrslunni að húsið og hvernig það var byggt hafi gert slökkviliðinu erfitt fyrir. „Timburhús með litla sem enga brunahólfun gerði það að verkum að ekki var hægt að stunda slökkvistarf innanhúss. Húsið sjálft varð til þess að reykur breiddist hratt út um húsið með þeim skelfilegu afleiðingum að þrír einstaklingar létust í brunanum.“

Eldsvoðinn leiddi til umræðu um húsnæðismál erlendra ríkisborgara í láglaunastörfum á Íslandi og skort á eldvarnarráðstöfunum í slíku leiguhúsnæði. Karlmaður á sjötugsaldri var síðan ákærður fyrir manndráp og íkveikju. Hin látnu voru öll pólskir ríkisborgarar sem bjuggu hér á landi. 

Þorpið vistfélag hefur keypt brunarústirnar og ætlar að hefja þar hreinsun og uppbyggingarstarf.