Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Logi um mál Ágústs: Stuðst við lýðræðislegt ferli

20.01.2021 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar - RÚV
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir Ágúst Ólaf Ágústsson hafa verið öflugan liðsmann sem ætli að starfa með þingflokknum fram að kosningum í haust. Ágúst Ólafur tilkynnti í dag að hann ætlaði ekki að taka þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík þar sem hann var oddviti áður. Logi segir stuðst við lýðræðislegt ferli og vonar að sterkum listum verði teflt fram.

Ágúst Ólafur náði ekki í fimm efstu sætin í skoðanakönnun sem haldin var innan flokksins um val á fólki í framboð í Reykjavík. Hann lagði fram sáttatillögu um að hann gæfi eftir oddvitasæti en tæki í staðinn annað sæti á lista flokksins. Þeirri tillögu var hafnað. 

Fjölmargir hafa lagt orð í belg á Facebook-síðu Ágústs í dag, meðal annars Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi þingmaður. Hann segir í athugasemd við færslu Ágústar að það verði alltaf skýrara og skýrara að „andstyggilegustu erjurnar í pólitík og mest mannskemmandi eiga sér stað innan flokka.“

Páll Valur Björnsson, sem sækist eftir sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi,  segist miður sín yfir þessum tíðindum.  „Mér er það algerlega óskiljanlegt að þú hafir ekki þótt sjálfsagður í fyrsta sæti í Reykjavík-suður í komandi kosningum.“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi eiginkona Ágústar, segir að þetta sé vond niðurstaða fyrir Samfylkinguna. „Þú hefur verið einn öflugasti þingmaður flokksins á kjörtímabilinu. Verður missir af þér af þingi.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist í samtali við fréttastofu vera sannfærður um að flokkurinn stilli fram sterkum lista í Reykjavík. 49 hafi gefið kost á sér og mikið mannval. Stuðst hafi verið við lýðræðislegt ferli.

Hann segir Ágúst ætla að starfa með þingflokknum fram að kosningunum. „Það er viðbúið í stórum flokki sem er að vaxa þar sem er mikið mannval að það verði breytingar við styðjumst við lýðræðislegt ferli þar sem er uppstilling á grundvelli tilnefninga og könnunar fjórtán manna uppstillinganefnd hún kemst að þessari niðurstöðu og hennar markmið er að tefla fram sterkasta listanum og ég vona að henni takist það. “