Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Krónan veiktist minna vegna færri ferðalaga Íslendinga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenska krónan veiktist í fyrra um átta prósent frá árinu áður. Það er þó ekki eins mikið og í fyrri kreppum. Ástæðan er meðal annars sú að ferðalög Íslendinga til útlanda drógust verulega saman.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Þar segir að faraldurinn hafi kippt ferðaþjónustu í heiminum nánast úr sambandi, en ferðaþjónustan hafi verið mikilvægasta útflutningsstoð Íslands síðustu ár. Veiking krónunnar í fyrra sé þó töluvert minni en í síðustu niðursveiflum hér á landi. Þannig lækkaði gengi krónunnar um rúm 13% í kreppunni 2001 og um rúmlega 35% í hruninu á árunum 2008 og 2009.

Í Hagsjánni kemur fram að ástæða þess að veiking krónunnar hafi ekki orðið meiri í fyrra, þrátt fyrir að mjög stór hluti gjaldeyristekna landsins hafi gufað upp, sé sú að ferðalög Íslendinga til útlanda hafi dregist mikið saman. Mikill samdráttur hafi því einnig orðið í innflutningi, þar sem ferðalög Íslendinga vega þungt. Þá hafi það einnig stutt gengi krónunnar, að Seðlabankinn beitti stórum gjaldeyrisforða sínum til þess að koma í veg fyrir að gengið veiktist langt umfram jafnvægi. 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV