Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Joe Biden kominn í Hvíta húsið

20.01.2021 - 21:26
epa08954184 US President Joe Biden and first lady Jill Biden wave as they arrive at the North Portico of the White House, in Washington, DC, USA, 20 January 2021. Joe Biden was sworn in earlier on the same day and became the 46th President of the United States.  EPA-EFE/Alex Brandon / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Joe Biden er kominn í Hvíta húsið, þremur klukkustundum eftir að hafa verið settur inn í embætti forseta Bandaríkjanna og þremur áratugum eftir að hafa boðið sig fyrst fram í embættið. „Mér líður eins og ég sé að koma heim,“ sagði Biden við fréttamann NBC. Reiknað er með að Biden láti það verða sitt fyrsta verk að skrifa undir 17 forsetatilskipanir, meðal annars um COVID, Parísarsamkomulagið og Alþjóðaheilbrigðisstofnunina.

Biden hefur verið á ferðinni í dag eftir athöfnina við þinghúsið þar sem stórstjörnur á borð við Lady Gaga og Jennifer Lopez komu fram.

Hann lagði blómsveig við gröf óþekkta hermannsins í Arlington-kirkjugarðinum sem æðsi yfirmaður bandaríska heraflans. Nokkrir fyrrverandi forsetar og forsetafrúr voru viðstaddir þá athöfn; Barack og Michelle Obama, George og Laura Bush og Bill og Hillary Clinton.

Síðan var ekið með forsetann að Hvíta húsinu. Hann gaf sér góðan tíma á leið sinni upp að byggingunni, ræddi meðal annars við veðurfréttamanninn Al Roker og heilsaði upp á Muriel Browser, borgarstjóra Washington. Þegar fréttamaðurinn Mike Memoli spurði Biden hvernig honum liði svaraði forsetinn: „Mér líður eins og ég sé á leiðinni heim.“

Kamölu Harris var einnig fagnað þegar hún gekk ásamt eiginmanni sínum í átt að Eisenhower-byggingunni þar sem varaforsetinn er til húsa. „Við erum að ganga til vinnu,“ sagði Harris við fréttamenn þegar hún var spurð hvernig henni liði. Hún er fyrsta konan til að gegna þessu embætti. 

Biden ætlar að taka til óspilltra mála strax í kvöld. CBS fréttastofan segir hann ætla að skrifa undir 17 forsetatilskipanir þar sem mörg umdeild stefnumál forvera hans verða felld úr gildi.

Bandaríkin verða til að mynda aftur hluti af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, sem og Parísar-sáttmálanum. Þá ætla Biden að mælast til hundrað daga grímuskyldu, fella úr gildi ferðabann frá nokkrum múslimaríkjum og stöðva byggingu múrs á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV