Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Biden setur met í fjölda tilskipana á einum degi

20.01.2021 - 23:13
President Joe Biden signs his first executive order in the Oval Office of the White House on Wednesday, Jan. 20, 2021, in Washington. (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: AP Images - RÚV
Eins og reiknað hafði verið með beið Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ekki boðanna eftir að hann kom í Hvíta húsið í dag heldur skrifaði undir fjölmargar forsetatilskipanir eða 15. „Ég ætla að standa við þau loforð sem ég gaf bandarísku þjóðinni,“ sagði Biden við fréttamenn. Aldrei hefur forseti Bandaríkjanna skrifað undir svo margar tilskipanir á einum degi og þær verða fleiri næstu daga.

Biden skrifaði meðal annars undir tilskipun þess efnis að Bandaríkin yrðu aftur hluti af Parísar-sáttmálanum. Fréttamaður BBC sagði þá tilskipun ekki bara táknræna því hún boðaði brotthvarf frá stefnu Donald Trumps um „Bandaríkin fyrst.“

Trump dró Bandaríkin út úr samkomulaginu með formlegum hætti í nóvember 2019. Úrsögnin tók síðan gildi daginn eftir forsetakosningarnar á síðasta ári. 194 ríki undirrituðu samkomulagið, sem skuldbindur þau til að finna leiðir til að halda hlýnun Jarðar undir tveimur gráðum frá meðalhitastigi fyrir daga iðnbyltingar, og helst undir 1,5 gráðum.

Biden skrifaði einnig undir tilskipun þar sem ákvörðun Trumps um að stöðva greiðslur til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, var dregin til baka.  Trump taldi stofnunina hafa brugðist hlutverki sínu með viðbrögðum sínum við kórónuveirufaraldrinum. 

Meðal annarra tilskipana má nefna tilmæli forsetans um að allir Bandaríkjamenn beri grímu næstu 100 daga til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.  Þá stöðvaði hann einnig fjárveitingu til múrsins á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna sem var eitt helsta stefnumál Trumps.

Aldrei hefur forseti Bandaríkjanna skrifað undir svo margar tilskipanir á sínum fyrsta degi í embætti eða 15. Donald Trump skrifaði undir 8 tilskipanir fyrsta hálfa mánuðinn og þær voru 9 hjá Barack Obama.  Reiknað er með að þær verði enn fleiri næstu daga. Forsetatilskipun þarf ekki samþykki frá þinginu og þykir yfirleitt nokkuð umdeild aðgerð. 

Biden fór reyndar býsna fögrum orðum um bréf sem Trump skildi eftir handa honum í Hvíta húsinu. „Þetta var mjög virðingavert bréf en ég ætla ekki að ræða það fyrr en ég hef rætt við Trump sjálfur,“ sagði Biden við fréttamenn.

Washington Post bendir á að Biden hafi gert umtalsverðar breytingar á skrifstofu forsetans í Hvíta húsinu og þær verði að skoðast sem táknrænar fyrir forsetatíð hans. Til að mynda skartar skrifstofan nú stóru málverki af Benjamin Franklin sem Bandaríkjamenn hafa oft horft til á erfiðleikatímum.

Málverk af Thomas Jefferson og Alexander Hamilton hanga hlið við hlið. Og það er engin tilviljun, segir Washington Post. Þeir hafi verið ósammála um margt en sýnt fram á gagnsemi þess þegar fólk með ólíkar skoðanir vinnur saman.

Þá eru brjóstmyndir af Martin Luther King og John F. Kennedy á skrifstofunni en málverk af Andrew Jackson var fjarlægt. Það var sett upp í tíð Donald Trumps. Jackson þótti popúlískur forseti, hafði þræla og skrifaði undir lög þar sem frumbyggjum var gert að víkja fyrir hvítu landtökufólki.

Þótt dagurinn hafi verið langur hjá Biden er honum hvergi nærri lokið.  Nú þurfa nokkrir embættismenn í Hvíta húsinu að sverja embættiseið sinn, síðan verður fyrsti blaðamannafundur hjá blaðafulltrúa Hvíta hússins og deginum lýkur síðan á sjónvarpsútsendingu sem leikarinn Tom Hanks stýrir.   Meðal þeirra sem þar koma fram eru Demi Lovato, Jon Bon Jovi og Justin Timberlake.